„Þetta hefur verið tiltölulega létt því snjórinn er svo mikill að þetta kemur bara niður,“ segir Jón Elvar Númason, sauðfjárbóndi á Þrasastöðum í Fljótum, í samtali við mbl.is.
Á Þrasastöðum rekur Jón eitt stærsta sauðfjárbú landsins með um 800 fjár. Aftakaveður gerði á Norðurlandi síðustu helgi en nú er verið að smala.
„Það hefur verið bras sums staðar en þetta hefur oft verið verra en þetta svo sem,“ segir Jón.
Í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku sagði Jón frá því að það stæði til að líta eftir fénu úr lofti en hann hefur afnot af þyrlu nágranna sinna að Deplum.
Aðspurður segist Jón ekki hafa notað þyrlu nágrannans mikið en helst þegar það þarf að kíkja inn dalina.
„Það munar svo miklu að þurfa ekki að labba það,“ segir Jón.
Spurður hvernig veðrið hefur verið segir Jón að það hafa verið fínt.
„Eftir að hann hætti að snjóa á okkur. Það er búið að vera mjög gott en kalt og snjórinn grjótharður og þar sem við höfum verið að labba höfum við þurft að vera á broddum,“ segir Jón.
„Þetta var miklu betra en við þorðum að vona. Við héldum að það væri meira fé ofarlega og hreinlega fast í snjó en það bjargaði því að aðdragandinn að veðrinu var hægt versnandi,“ segir Jón.
Kindurnar hafi haft tíma til að koma sér niður vegna þess að veðrið versnaði smám saman.
„Það munaði öllu,“ bætir Jón við.
Jón segir að töluverður fjöldi af fólki hafi mætt til að hjálpa þeim að smala.
„Þetta var svo auðvelt því það fóru svo fáir í snjóinn að labba þar að það var svo margt fólk niðri á láglendi þar sem var autt þannig að þá gekk þetta svo vel,“ segir Jón og bætir við að lokum:
„Það lá við að menn héldust í hendur sums staðar þegar þeir voru að reka.“