Reyndi að stinga lögreglu af á 200 km/klst

Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ökumaður bifhjóls reyndi að stinga lögreglu af í nótt. Ók hann á köflum á rúmlega 200 km/klst hraða.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgunsárið. Þar segir að talsverður erill hafi verið í nótt.

Bifhjólaökumaðurinn tók á það ráð að reyna að stinga lögreglu af eftir að hafa fengið merki um að stöðva akstur vegna mikils hraða.

Að sögn lögreglu ók ökumaðurinn á rúmlega 200 km/klst hraða á köflum og reyndi síðar að stinga laganna verði af með því að aka göngustíga og á gangstéttum. 

„Eftir talsverða eftirför tókst lögreglu að stöðva ökumanninn og verður hann kærður fyrir fjölda umferðarlagabrota, m.a. fyrir að aka án réttinda og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu um að stöðva,“ segir í dagbókinni.

Betur fór en á horfðist

Þar segir einnig af því að lögreglan hafi stöðvað að minnsta kosti þrjá aðra ökumenn, en þeir voru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.

Þá var lögregla kölluð til vegna umferðaróhapps þar sem fyrst var talið að kviknað hefði í bifreiðinni. 

Betur fór en á horfðist og var enginn eldur þegar lögreglu bar að garði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert