Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leiðinni að sækja slasaðan mann í Skaftafell.
Þorsteinn Matthías Kristinsson, varðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, segir þyrluna á leiðinni sem og aðra viðbragðsaðila.
Þorsteinn segir að maðurinn hafi fallið niður hæð en meira geti hann ekki sagt að svo stöddu.
Uppfært klukkan 15.43:
Í samtali við mbl.is segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, að maðurinn hafi fallið í gil. Það sé búið að ná honum úr gilinu og hann virðist ekki hafa slasast illa.
Hann segir að þyrla Landhelgisgæslunnar sé komin á vettvang.
Björgunarsveitirnar Kári í Öræfum og Kyndill á Kirkjubæjarklaustri tóku þátt í aðgerðunum.