Útkall vegna húsbíla sem þveruðu veginn

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Tvö útköll bárust björgunarsveitunum vegna veðurs á Norðurlandi og Austurlandi í gær.

Þetta segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is.

Hann segir að um sex leytið í gærkvöldi hafi borist útköll frá Mývatnsöræfum og Hellisheiði eystri. Björgunarsveitir úr Jökuldal og frá Vopnafirði aðstoðuðu vegfarendur að sögn Jóns Þórs.

Hátt í tíu ökutæki sem þurfti að aðstoða

Hann segir að á Hellisheiði eystri hafi verið vetrarfærð og bílar á sumardekkjum hafi ekki komist upp brekkurnar.

„Á Mývatnsöræfum var sama sagan en þar voru einhverjir húsbílar sem þveruðu veginn eða lokuðu veginum,“ segir Jón Þór.

„Þetta voru á sitt hvorum staðnum hátt í tíu ökutæki sem þurfti að aðstoða og í kjölfarið var veginum um bæði Hellisheiði eystri og Mýrdalsöræfum lokað.“

Aðspurður segir hann að björgunarsveitarmennirnir hafi lokið störfum um ellefu leytið í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert