Vilhjálmur Birgisson ekki tekið ákvörðun um framboð

Vilhjálmur Birgisson útilokar ekki framboð til Alþingis en segist vera í mjög góðu starfi. Fleiri en einn stjórnmálaleiðtogi hefur komið að máli við hann með mögulegt framboð í huga.

Þetta upplýsir Vilhjálmur í hressilegu viðtali á vettvangi Spursmála þar sem hann er gestur ásamt Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur, alþingismanni Viðreisnar.

Þegar gengið er á Vilhjálm með hvaða stjórnmálaleiðtogar hafi haft samband við hann, færist hann undan því að svara. Hann hefur þó á síðustu árum farið fögrum orðum um forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 2013 til 2016.

Orðaskiptin um mögulegt framboð verkalýðsleiðtogans má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.

Engin ákvörðun tekin enn

Vilhjálmur Birgisson, þú mærðir hér Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrir framgöngu hans í kjölfar kosninganna 2013. Það styttist í kosningar. Ert þú á leiðinni í framboð?

„Er ég á leiðinni í framboð? Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það.“

Kemur það til greina?

„Ég er í mjög góðu starfi núna.“

Þú ert búinn að vera lengi í því. Er ekki kominn tími á það sem menn kalla second career?

„Nei, ég er bara í mjög góðu starfi þannig að ég er ekki farinn að hugsa um slíkt.“

Hafa stjórnmálaleiðtogar haft samband við þig til þess að kanna flöt á því að þú farir í framboð?

„Ég ætla ekki að neita því.“

Úr fleiri en einum flokki?

„Ég ætla ekki að neita því.“

Hefur Kristrún Frostadóttir...?

„Nei, ég svara þessu ekki. Þetta hefur verið nefnt við mig. Það var gert 2013. Þetta hefur oft verið gert við mig, marg oft.“

Kemur þetta til greina?

„Það veit enginn framtíð sína fyrr en öll er, ef þannig má að orði komast.“

Þú svarar allavega eins og stjórnmálamaður.

„Það eru ærin verkefni framundan til þess að koma íslensku samfélagi til betri vegar og þar er fjármálakerfið númer eitt tvö og þrjú. Því það er ekki hægt að láta þetta viðgangast lengur. Ég ætla Stefán að lokum að fá að segja þetta. Frá árinu 2015 til 2019 var verðbólgan á Íslandi að meðaltali innan við 2%. Samt voru stýrivextir hér 4,5% og óverðtryggðir vextir voru í kringum 6 til 7 prósent. Það virðist ekki skipta neinu máli hvernig ástandið er á hverjum tíma fyrir sig þá er bara fundin einhver önnur og ný ástæða til að leiðrétta þetta.“

Það kemur í ljós innan fárra missera hvort þetta hafi verið framboðsræða eða ekki.

Viðtalið við Vilhjálm og Þorbjörgu má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

Vilhjálmur upplýsir ekki hvort Kristrún Frostadóttir hafi haft samband við …
Vilhjálmur upplýsir ekki hvort Kristrún Frostadóttir hafi haft samband við hann um mögulegt framboð fyrir alþingiskosningarnar sem nú þokast nær, eins og þorskurinn forðum í ódauðlegum texta Bubba Morthens. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert