Móðir drengs í 2. bekk í Helgafellsskóla sem kom með hníf í skólann og er sagður hafa ítrekað beitt bekkjarsystur sína ofbeldi og hótað henni lífláti, segist miður sín yfir því að heyra af vanlíðan stúlkunnar og að hún ætli ekki að afsaka hegðun sonar síns. Í samtali við mbl.is segir hún að það séu hins vegar tvær hliðar á öllum málum og mikilvægt sé að gæta hagsmuna beggja barnanna.
Mikil vinna hafi verið í gangi með son hennar síðustu mánuði og að þau foreldrarnir hafi alla tíð verið mjög samvinnuþýð, enda vilji þau syni sínum það allra besta og stúlkunni líka.
Marta Eiríksdóttir, móðir stúlkunnar, birti færslu á Facebook í gær þar sem hún rakti málið og gagnrýndi skólastjórnendur Helgafellsskóla harðlega fyrir aðgerðarleysi. Þar kom fram að foreldarnir hefðu ákveðið að taka stúlkuna úr skólanum þar sem hún væri orðin skelin af sjálfri sér því hún væri svo hrædd við drenginn. Í samtali við mbl.is sagði Marta það skjóta skökku við að dóttir hennar hrökklaðist úr námi en að drengurinn hefði ekki misst úr einn dag úr skóla eða frístund vegna málsins.
Móðir drengsins birti svo nafnlausa færslu í hópnum Mæðra-tips á Facebook í morgun þar sem hún vildi fá að segja sína hlið á málinu. Færsluna hafði hún áður birt í hópi fyrir foreldra barnanna í bekknum. Í samtali við mbl.is segir hún síðasta sólarhringinn hafa verið mjög erfiðan, en hún hafi viljað standa upp fyrir son sinn sem í raun hafi verið útskúfaður úr bekknum síðasta vor.
„Allt það sem hefur gengið á hefur verið mjög taugatrekkjandi fyrir okkur foreldrana og að fá svona árás á vefnum er auðvitað alls ekki boðlegt,“ segir móðir drengsins. Hún geri sér þó grein fyrir því að í frásögninni felist aðallega gagnrýni á skólastjórnendur og bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ. Málið hafi engu að síður tekið mikið á hennar fjölskyldu og segir hún þau foreldrana enn skjálfandi eftir að málið fór á flug í gær bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
„Við erum mjög samvinnuþýð og höfum alltaf verið það. Ég er sjálf komin í veikindaleyfi frá vinnu vegna þess að mig langar til að vera til staðar fyrir börnin mín,“ útskýrir hún.
Þau fari reglulega á teymisfundi í skólanum, hitti sálfræðing og að stuðningsfulltrúi aðstoði drenginn með ýmislegt á skólatíma. Þá hafi hann meðal annars farið í þroska- og vitsmunamat og fleiri próf lögð fyrir.
Í Facebook-færslunni rakti hún samskipti barnanna eins og þau komu henni fyrir sjónir, en þau virðast hafa verið góðir vinir þar til síðasta vor.
Hún heyrði fyrst af því að sonur hennar hefði beitt stúlkuna ofbeldi þegar móðir hennar hafði samband og sagði hana með stóra marbletti eftir drenginn. Ræddi hún alvarlega við son sinn í kjölfarið en skömmu síðar meiddi hann stúlkuna aftur. Þá hafi hann jafnframt sagt að hún væri ekki lengur vinkona hans og þau foreldrarnir fengu þær upplýsingar frá skólanum að hann væri einnig að segja öðrum börnum að vera vond við hana.
„Svo kemur símtal heim 3. maí um að strákurinn okkar hafi tekið með sér hníf í skólann. Hann tekur hann upp úr töskunni í rólegheitum þegar allir eru að fara að borða nestið sitt. Ég fékk símtalið frá skólanum um þennan atburð. Auðvitað er kennurum brugðið skil það vel, en hann er mjög rólegur og er að sýna vini sínum hnífinn, þegar kennarinn spyr hvað hann sé að gera með hnífinn, segir hann fyrst skera brauðið sitt svo þegar fleiri spurningar koma af sama tagi, þá segist hann ætla að drepa stúlkuna,“ skrifaði móðir drengsins í færslunni
Hún hafi orðið alveg miður sín en segist viss um að sonurinn viti ekki hvað þetta þýði.
Í kjölfarið hafi hún reynt að setja sig í samband við móður stúlkunnar en ekki fengið svar. Þau hafi svo verið tilkynnt til barnaverndar vegna málsins og ýmis vinna hafi farið í gang.
„Hann var gjörsamlega kúplaður úr bekknum, hann var settur í annað rými að læra með stuðning með sér. Fór ekki út að leika með hinum krökkunum og var einn í mat. Honum fannst það samt ekki leiðinlegt og honum leið betur. Starfsmenn voru farnir að sjá mikinn mun á hans líðan og töluðu vel um hann. Áður en skólanum lauk var sveitaferð og fleira í boði í skólanum sem honum var boðið með í, og það var að sjálfsögðu stuðningur með honum, þau fóru í rútu í sveitina og stúlkan vildi sitja hjá honum í rútunni. Ekkert athugavert var þá í fari hans gagnvart henni samkvæmt því sem ég fékk að heyra frá hans fylgdarmönnum eftir daginn. Þau léku sér saman og svo kom að skólaslitum.“
Hún segir sumarið hafa liðið áfallalaust en stúlkan hafi komið einu sinni og spurt eftir honum.
„Nú eru þau komin í annan bekk og við foreldrarnir förum á okkar fyrsta teymisfund með skólanum mánudaginn 9.september. Fundurinn er með kennara, stuðningskennara og frístund ásamt sálfræðingi frá Mosfellsbæ. Þau tala um hvað hann er með allt annað viðhorf í skólanum og miklu duglegri að læra og vinna verkefni,er farinn að sækjast í hópastarf og þetta er bara að byrja dásamlega. Einnig er nefnt hvað stúlkan og strákurinn okkar eru mikir vinir og þau séu endalaust að dunda sér, leika í búðarleik og Hann að sjálfsögðu alltaf með stuðning í frístund og í skólanum. strákurinn okkar er búinn að koma mjög glaður heim og finnst svo gaman að þau séu orðnir vinir aftur. Ég spyr hann reglulega hvort hann sé ekki góður við hana og hann segir alltaf jú mamma, en ég var ekki góður við hana einu sinni, en ég lofa ég er það núna. Hann er ekki vanur að ljúga og þar sem hann er mikill mömmustrákur og segir mér alltaf allt og hefur alltaf gert.“
Í samtali við mbl.is segir hún son sinn algjöran kærleiksbjörn sem segi henni allt. Hún hafi þráspurt hann bæði með opnum spurningum og beint út hvort hann hafi hótað stúlkunni því að hann myndi drepa hana ef hún léki ekki við hann. Hann hafi neitað því.
„Ég trúi því að hann sé að segja mér satt. Hann er mjög sár yfir því að hún sé farin úr skólanum. Hún var vinkona hans,“ segir hún. Stúlkan hafi sótt mikið í son hennar og foreldrar annarra barna í bekknum geti staðfest að þau hafi verið mikið saman.
Hún segir mjög erfitt að vita til þess að sonur hennar eigi nú enga vini og bendir jafnframt á að það taki þrjú ár fyrir barn að fá greiningu.
„En ég veit samt að drengurinn minn er ekki vondur og vill engum illt, hann er bara að reyna að finna sig líka og við erum að kenna honum að nota orðin sín alla daga. Ekki meiða og ekki segja þetta ljóta orð sem upp kom hér á undan. Það er ekkert sem tekur meira á mann tilfinningalega en að barninu manns líði illa eða að allur skólinn sé á móti því,“ segir hún og vonar að fólk geti sett sig í þeirra spor.
Hún telur alla vera að reyna að gera sitt besta í þessu máli og kallar eftir því að hægt sé að finna leið þannig allir geti unnið saman að hagsmunum barnanna.
Færsla móðir drengsins í heild sinni: