Feðginin áttu í eðlilegum samskiptum

Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.
Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. Eyþór Árnason

„Það er ekkert sem bendir til annars en að þau hafi verið í eðlilegum samskiptum þennan dag og hann hafði heimild til þess að vera með dóttur sinni,“ segir Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, um manninn sem er nú í haldi lögreglu grunaður um að hafa banað 10 ára dóttur sinni í gærkvöldi.

Spurður hvort að málið tengist forsjárdeilum og hvort að maðurinn hafi haft forsjá með dótturinni segir Grímur:

„Ég kann ekki alveg að segja þér frá því hvort hann hafi haft forsjá eða sameiginlega forsjá en ég hygg að svo sé ekki, ég held að móðirin hafi haft forsjána. Hins vegar hafði hann umgengnisrétt við barnið.“

Þá segir hann að ekkert bendi til þess að faðirinn hafi numið stúlkuna á brott.

Tók tíma að staðsetja manninn

Spurður út í atburðarás gærkvöldsins segir Grímur: 

„Upp úr klukkan sex í gærkvöldi fengum við tilkynningu frá manni sem að hringdi til okkar og sagðist hafa banað dóttur sinni. Það var dálítið óljóst [...] hvar hann væri nákvæmlega þannig það tók dálítinn tíma að fá hann til að segja það almennilega og staðsetja það.“

Hann bætir við að þegar þær upplýsingar hafi loks fengist hafi maðurinn fundist fljótlega og verið handtekinn af sérsveit ríkislögreglustjóra. Það var í hraun­inu gegnt Vatns­skarðsnámu við Krýsu­vík­ur­veg.

„Þeir héldu svo áfram að einhverju leyti samkvæmt ábendingu frá honum og fundu stúlkuna látna úti í hrauninu,“ segir Grímur en aðspurður segir hann að hún hafi fundist nokkurn spöl frá staðnum þar sem maðurinn var handtekinn.

Var ekki undir áhrifum

Þá segir hann að ástæðan fyrir því að tíma tók að staðsetja manninn hafi ekki verið ósamvinnuþýði af hans hálfu heldur frekar að hann hafi ekki almennilega áttað sig á því hvar hann væri staddur.

Spurður hvort hann hafi þá verið undir áhrifum eða í andlegu ójafnvægi segir Grímur:

„Nei hann virtist ekki vera undir áhrifum efna eða áfengis og ekkert í miklu ójafnvægi.“

Grímur segir að málið sé sem stendur aðeins rannsakað sem manndráp en ítrekar að annað geti komið í ljós síðar.

Krufning fer fram í vikunni

„Á þessu stigi erum við með til rannsóknar manndráp en það getur orðið breyting á svona rannsóknum.

Það geta komið upplýsingar fram sem benda til einhvers annars en búist var við í upphafi og í svona rannsóknum er afar mikilvægt að lögreglumenn sem að henni koma geri það með opnum hug og hugsi vítt,“ segir Grímur.

Hann getur ekki gefið upp hvort talið sé að um sé að ræða viljaverk eða hvort vopni hafi verið beitt.

„Nú er það þannig að það fer fram krufning í vikunni og í framhaldi af því munum við fá bráðabirgðaniðurstöðu um dánarorsök. Hvort við munum upplýsa um hver hún er verður bara að koma í ljós,“ segir Grímur.

Hefur ekki tjáð sig mikið í yfirheyrslum

Eins og áður segir tilkynnti maðurinn brotið sjálfur til lögreglu en Grímur vill ekki gefa upp hvort að formleg játning hafi komið fram í yfirheyrslum í dag.

„Hann hefur ekki tjáð sig mjög mikið en ég vil ekki fara út í hvað hefur komið fram í yfirheyrslunum að öðru leyti,“ segir Grímur.

Þá segir hann aðspurður að gerð hafi verið húsleit í húsnæði sem maðurinn hefur aðgang að í dag sem og leitað í bíl hans sem fannst á vettvangi.

Loks segir hann að maðurinn hafi ekki áður komist í kast við lögin vegna ofbeldisverka og að hann viti ekki til þess að barnavernd hafi áður haft afskipti af honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert