Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, bað um að brottflutningur Yazans Tamimi til Spánar yrði stöðvaður svo hægt væri að ræða málið í ríkisstjórn.
Þetta staðfestir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Áður hafði mbl.is greint frá því samkvæmt heimildum að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefði fyrirskipað að hætt yrði við brottvísun Yazans að sinni, eftir að beiðni þess efnis hafði borist innan úr ríkisstjórninni.
Ekki er ljóst hvort að Guðmundur hafi sjálfur haft samband við Guðrúnu.
Íslensk yfirvöld sóttu Yazan seint í gærkvöldi í Rjóðrið, hjúkrunar- og endurhæfingardeild Landspítala fyrir langveik fötluð börn, þar sem hann lá sofandi.
Var hann fluttur upp á Keflavíkurflugvöll þar sem fljúga átti með hann á brott í morgun.
Áður en að því kom ákvað ráðherrann að bíða skyldi með brottvísunina eins og áður sagði.
Yazan er nú kominn upp á Barnaspítala Hringsins, eftir næturlanga dvöl í Leifsstöð.
Kærunefnd útlendingamála vísaði máli palestínska drengsins endanlega frá í júní eftir að fjölskyldan hafði sótt um alþjóðlega vernd við komuna til landsins í fyrra.
Yazan og foreldrar hans millilentu á Spáni á leið sinni til Íslands, en þurftu vegna verkfalls að yfirgefa flugvöllinn sem hafði þær afleiðingar að þar með þurftu þau að skrá sig inn í landið og brottvísunarákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar urðu virk.
Á grundvelli hennar er íslenskum stjórnvöldum því kleift að vísa fjölskyldunni úr landi án þess að Útlendingastofnun taki mál hennar til efnislegrar meðferðar og hefur kærunefndin staðfest að Yasan og foreldrum hans skuli vísað úr landi.