Segir hið ómögulega hafa gerst

Frá Keflavíkurflugvelli í nótt.
Frá Keflavíkurflugvelli í nótt. Ljósmynd/Aðsend

Hópur fólks er samankominn í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda, þar sem til stendur að vísa palestínska drengnum Yazan Tamimi og fjölskyldu hans úr landi.

Yazan er með vöðvahrörnunarsjúkdóminn Duchenne og var vakinn á spítalanum fyrir miðnætti.

Sólveig Arnarsdóttir leikkona er ein þeirra sem mótmæla aðgerðum stjórnvalda nú í nótt.

„Þrátt fyrir að við öll hefðum haft trú á því að þetta gæti ekki gerst þá gerðist hið ómögulega núna rétt fyrir miðnætti á sunnudegi, að lögreglan fór inn á barnaspítala og tók þar – vakti upp þennan dreng sem er bundinn hjólastól, er alvarlega veikur, bæði andlega og líkamlega, og svo er hann fluttur hingað á öðru hundraðinu og verið að fara með hann úr landi,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is á Keflavíkurflugvelli.

„Þess vegna erum við hér.“

Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Sólveig Arnarsdóttir eru á meðal þeirra sem …
Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Sólveig Arnarsdóttir eru á meðal þeirra sem mótmæla í Leifsstöð. mbl.is/Iðunn

Líður rosalega illa

Bergþóra Snæbjörnsdóttir rithöfundur er einnig í Leifsstöð og tekur í sama streng.

„Við erum að sýna samstöðu og reyna að vera nálægt þeim. Yazan líður rosalega illa. Símarnir eru teknir af foreldrunum strax og þau fá ekki að hafa samband við réttindagæslu, það er ekki haft samband við lögfræðing. Þau fá eitt símtal í lögfræðing og þau eru náttúrlega bara í miklu uppnámi,“ segir hún.

Lögmaður Yazans, Albert Björn Lúðvígsson, segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá lögreglu og raunar aðeins frétt af brottvísun skjólstæðings síns eftir að starfsfólk spítalans hafði samband við réttindagæslumann fatlaðra.

Bergþóra bendir á að aðeins fimm dagar séu þar til spænsk yfirvöld beri ekki lengur lagalega ábyrgð gagnvart fjölskyldunni, þar sem þá hafi hún dvalið nægilega lengi á Íslandi samkvæmt skilgreiningu gildandi laga.

„Og það er augljóst að það er verið að nota hann sem pólitískt peð til að sýna ákveðna stefnu í útlendingamálum og innflytjendamálum sem er bara mannvonska, bara illska,“ segir Bergþóra.

Hvað er handan línunnar?

„Maður veltir raunverulega fyrir sér,“ segir Sólveig, „ef við gerum þetta, hvað er þá handan þessarar línu. Eina sem manni dettur í hug væri að taka foreldralaust tveggja ára barn og senda það úr landi. Maður hugsar – ef þú tekur fatlað barn frá Palestínu, þú ryðst inn á eða bara ferð inn á barnaspítala, vekur hann um miðja nótt, og það er ekki einu sinni réttindagæslumaður fatlaðra með honum.“

Var viðkomandi ekki látinn vita?

„Nei, hún var ekki látin vita, sem er skýrt brot á reglum og vinnuferlum. Þannig að þetta er eins harðneskjulegt og hægt er. Allt til þess að gefa út þessa yfirlýsingu – það er bara verið að sýna, hér er línan og eins og ég segi, ég hef ekki hugmyndaflug í að vita hvað gæti verið handan þessarar línu,“ segir Sólveig.

„Líf hans er á þessari stundu á ábyrgð Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra,“ segir Bergþóra.

„Hún ber einfaldlega ábyrgð á lífi Yazans Tamimi,“ segir Sólveig.

Tímasetningin engin tilviljun

Þetta val á tímasetningu, hvað hafið þið að segja um það?

„Það á bara að gera þetta í skjóli nætur, til að reyna að komast hjá allri athygli sem hægt er,“ segir Bergþóra.

„Ég meina, miðnætti á sunnudegi, það er bara aldrei sá tími í veröldinni sem fleira fólk er sofandi heldur en akkúrat þá,“ segir Sólveig.

„Tímasetningin er engin tilviljun, svo sannarlega ekki.“

Þær segja að til standi að fljúga með drenginn úr landi klukkan 8.25 að morgni.

„Þannig að núna situr Yazan hræddur með fjölskyldunni sinni, með mömmu sinni og pabba sínum, í litlu herbergi hérna í klefa með plasthúsgögnum og veit ekkert hvað bíður sín og það er á ábyrgð Íslands,“ segir Bergþóra.

Öll orðlaus

Þær segja að nú sé tíminn til að fólk láti í sér heyra um þessi mál.

„Við höfum heyrt hvernig orðræðan er að breytast og verða harðari og harðari og það er óhugnanlegt að fylgjast með málflutningi, sérstaklega Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og svo sem annarra líka í útlendingamálum,“ segir Sólveig.

„Að þau skyldu samt ganga svona langt, fimm dögum áður en að drengurinn hefði átt rétt á því að vera bara hér. Við erum öll eiginlega bara orðlaus.“

Spurðar út í aðkomu eða aðkomuleysi ráðherra í ríkisstjórn segja þær:

„Það er ekki hægt að segja bara já, við erum hérna með bara einhverjar stórfenglegar stofnanir og þær gerðu allt rétt. Það er í fyrsta lagi ekki rétt hjá þeim, Dyflinnarsáttmálinn er á engan hátt bindandi og það er hann sem er verið að nota núna,“ segir Sólveig.

„Fyrir utan það að dómsmálaráðherra, barnamálaráðherra og félagsmálaráðherra geta auðvitað svo sannarlega beitt sér. Þó ekki væri nema með því að segja: Heyrðu, ég ætla bara að stíga hér upp af því að ég er bara manneskja og við ætlum að sýna hér samlíðan og samkennd.“

Segir lögreglu brjóta eigin vinnureglur

Bergþóra heldur áfram:

„Þetta er svo augljóst, það eru ekki vinnureglur lögreglunnar að sækja fólk inn á spítala til að vísa því á brott. Hér er verið að brjóta þá vinnureglu sem virðist vera til þess að moka þessu barni út og það er af því að það er pólitískt.

Annað hvort er bara lögreglan skyndilega að missa vitið og brjóta sínar eigin vinnureglur, sem við höfðum ekki haft neina tilfinningu fyrir að stæði til, eða þá að þetta er bein skipun úr ráðuneytinu. Þannig að það er verið að skipta sér af einstökum málum,“ segir hún.

Bergþóra rifjar upp mál Mohamads Kourani, sem fékk breytingu nafns síns samþykkta af Þjóðskrá.

„Við sáum það í máli Sýrlendingsins sem breytti um nafn. Þá var allt í einu hægt að hafa samband og skipta sér af, og senda fyrirspurn á Þjóðskrá. Þannig að þetta er bara þvaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert