Skýra þurfi betur heimildir stjórnvalda

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

„Aðgerðir lögreglu síðasta sólarhring varpa ljósi á mikilvægi þess að skýra betur hvaða heimildir stjórnvöld hafa til að fara inn á sjúkrastofnanir og sækja þangað veika einstaklinga til brottflutnings úr landi,“ segir í tilkynningu sem Landspítalinn hefur sent frá sér.

Kemur þar fram að afstaða spítalans er að þær heimildir séu ekki hafnar yfir allan vafa en slíkt verður að teljast nauðsynlegt í svo afdrifaríkum aðgerðum.

Kemur tilkynningin í kjölfar þess að klukk­an 23 í gær­kvöldi mætti sjö til átta manna hóp­ur, sem sam­an­stóð af lög­reglu­mönn­um og starfs­mönn­um hins op­in­bera ásamt túlki, til að sækja ell­efu ára palestínska dreng­inn Yaz­an Tamimi í Rjóðrið.

Til stóð að Yazan yrði, ásamt fjölskyldu sinni, sendur úr landi í nótt áður en að beiðni kom frá Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra að brottflutningnum yrði frestað og málið rætt innan ríkisstjórnar.

Hafi truflandi áhrif á viðkvæma starfssemi

Í tilkynningunni frá Landspítalanum segir að vegna fréttaflutnings af málinu telji spítalinn mikilvægt að árétta nokkur atriði sem snúa að stofnuninni.

„Landspítali er sjúkrahús, stofnun sem tekur við veikum einstaklingum til líknar og lækninga. Spítalinn tekur hlutverk sitt alvarlega enda er þjónusta hans mikilvægt hagsmunamál fyrir allan almenning. Starfsfólk Landspítala veitir öllum þjónustu sem þangað leita, hvort sem þeir eru íslenskir ríkisborgarar eða ekki og leggur sig fram um að mismuna sjúklingum aldrei,“ segir í tilkynningunni.

Kemur þar enn fremur fram að stofnunin vilji ítreka að mikilvægi þess að sérstaklega sé hugað að því að lögregluaðgerðir inn á sjúkrastofnunum á borð við Landspítala hafi afar truflandi áhrif á viðkvæma starfsemi og þar af leiðandi þá einstaklinga sem treysta á þjónustu spítalans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert