Móðir sem sögð er hafa neitað að yfirgefa skólastofu 1. bekkjar í Helgafellsskóla á mánudag fyrir tveimur vikum og sökuð um að aðför að skólanum, skólastjórnendum og starfsfólki skólans, segir í samtali við mbl.is að ekki sé ekki farið með rétt mál í bréfi sem um 60 foreldrar sendu bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ, og greint hefur verið frá í fjölmiðlum.
Vonar hún að ekkert þessara foreldra þurfi að ganga í gegnum það sama og hún hefur þurft að gera með sitt barn.
Er þetta annað málið sem greint er frá á skömmum tíma þar sem stjórnendur Helgafellsskóla fá á sig mikla gagnrýni fyrir aðgerðarleysi. Í gær var greint frá máli stúlku sem sögð er hafa mátt þola alvarlegt ofbeldi af hálfu samnemanda án þess að skólinni hafi gripið almennilega í.
Móðirin segir málið ekki svo einfalt að hún hafi neitað að yfirgefa skólastofuna, heldur gerði hún kröfu um að öryggi barns hennar væri tryggt, en barnið hafði greint frá ofbeldi af hálfu kennara. Sagðist hún ætla að fara þegar hægt væri að fullvissa hana um að barnið væri öruggt. Þegar það var gert fór hún.
Dagana eftir hafi hún eingöngu fylgt sonum sínum í skólann líkt og aðra morgna. Þrátt fyrir það hafi kennsla verið felld niður á fimmtudeginum og í bréfinu var ástæðan sögð sú að kennarar treystu sér ekki til að sinna kennslu vegna framgöngu hennar. Segir hún málið nú í höndum lögfræðings.
Konunni þykja þessar ásakanir hálf hjákátlegar og segir þær eigi ekki við rök að styðjast. Segist hún hafa rætt við deildarstjóra í um hálftíma í anddyri skólastofu á mánudeginum, en engin börn hafi orðið vitni að samtalinu þar sem þau hafi verið inni í öðrum lokuðum rýmum.
Sonur hennar, sem er í 1. bekk, hafði föstudaginn áður greint frá því að kennari hefði rifið í höndina á honum og annar öskrað á hann eftir að hann átti að hafa kastað kubb í átt að kennara. Segir hún tvo kennara hafa gefið henni mismunandi lýsingar á atvikinu. Annars vegar að sonurinn hafi viljandi kastað kubb í átt að kennara og hins vegar að hann það hafi gert það óvart þar sem hann hafi verið í uppnámi eftir stríðni af hálfu annarra nemenda, sem var í samræmi það sem sonurinn sagði sjálfur.
Konan segir engan vilja hafa verið til þess að setjast niður og fara yfir málið af hálfu kennarana sem áttu hlut að máli eða skólayfirvalda. Það hafi hún verið mjög ósátt við. Vildi hún fá frekari upplýsingar um atvikið og tryggja öryggi sonar síns í skólanum.
Hún viðurkennir að hún hefði mátt hafa verið í betra jafnvægi, en hún hefði verið komin 40 vikur á leið og á þessum tímapunkti einfaldlega verið buguð og ráðþrota móðir, þar sem það hafði gerst einu sinni áður að sonurinn sagði kennara hafa meitt hann.
„Það er svo auðvelt að segja að börn segi hitt og þetta en foreldrar þekkja börnin sín best og drengurinn hefur aðeins sagt eitthvað svona þessi tvö skipti. Það er ekki eins og hann komi heim á hverjum degi og segi að hinn og þessi hafi verið að öskra á hann og meiða. Hann er hins vegar skýr, hreinskilinn og einlægur og segir hlutina eins og þeir eru. Þess vegna trúum við honum,“ segir konan.
Henni fannst mikilvægt að sonur hennar fengi að njóta vafans og að hann upplifði að honum væri trúað. Aðeins þannig hefði verið hægt að byggja upp traust að nýju. Sérstaklega eftir fyrra atvik þar sem ekkert var að gert.
„Ég segi við deildarstjóra yngsta stigs, sem er yndisleg kona, að ég sé ekki tilbúin að skilja barnið mitt eftir nema ég viti að það sé öruggt. Það væru tveir kennarar í teyminu hans, annar hefði öskrað á hann og hinn tekið í höndina á honum. Ég var eðlilega í miklu uppnámi en ég var ekki öskrandi og gargandi.“
Konan segir niðurstöðu samtalsins hafa verið þá að deildarstjórinn hafi ætlað að fylgja drengnum eftir þann daginn.
„Ég var því tilbúin að fara og skildi drenginn eftir. Þetta var eini tíminn sem ég varði í skólanum,“ segir konan og bendir á að það ætti að vera hægt að sannreyna hennar frásögn með því að skoða upptökur úr öryggismyndavélum.
„Mér sést ekki bregða fyrir nema til að fara með syni mína í skólann og svo rakleiðis út aftur.“
Hún segist ekki hafa vitað af bréfinu sem sent var til bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ og hafi komið af fjöllum þegar greint var frá málinu í fjölmiðlum. Þó hún hafi ekki kannast við lýsingar á atvikum þá hafi hún strax áttað sig að þar væri átt við hana.
„Þetta er svo fullkomið dæmi um það hvernig hlutirnir vinda upp á sig. Ég skil alveg þessa foreldra að vilja að börnin þeirra og kennararnir séu í skólanum, en að sama skapi finnst mér alveg magnað að það sé hægt að kenna mér um að börnin mæti ekki í skólann og starfsfólk til vinnu. En mér finnst óskiljanlegt að að bæði starfsfólk og foreldrar séu tilbúin að líta framhjá svona alvarlegum atvikum.“
Á fimmtudeginum, þegar kennsla var felld niður, segist hún hafa verið komin heim þegar póstur barst um níuleytið að sækja þyrfti börnin í skólann. Sjálf hafi hún orðið fyrir hálfgerðu aðkasti af hálfu nokkurra feðra barna í bekknum þegar hún fylgdi drengjunum í skólann þann daginn.
„Þá voru nokkrir feður í fyrsta bekk búnir að hópa sig saman fyrir utan skólann að fylgjast með mér af því þeir vildu ekki að ég endurtæki leikinn. Þá höfðu þeir greinilega heyrt að ég hefði hangið inni í skólastofu allan liðlangan daginn, sem gerðist aldrei. En ég verð að viðurkenna að mér fannst það ekki þægilegt að hópur karlmanna væri að fylgjast með mér þegar ég fór með börnin mín í skólann. Það sér enginn neitt athugavert við það, en ég kalla þetta aðför að mér.“
Konan á þrjá syni sem allir hafa gengið í Helgafellsskóla, en hafa nú verið fluttir í annan skóla þar sem hún segir vel hafa verið tekið á móti þeim. Tengist sá flutningur ekki umræddu máli heldur hafa fleiri mál er varða hennar börn komið upp innan skólans og hún verið mjög ósátt við úrvinnsluna.
Fyrsta málið sem kom upp varðaði elsta son hennar, sem varð fyrir einelti þegar hann var í fyrsta bekk. Segir hún skólann hafa kallað það samskiptavanda og ekki gert neitt til að taka á málinu. Það var ekki fyrr en annað foreldri benti þeim á svokallaðan eineltishnapp á vef skólans og þau notuðu hann, að einhver hreyfing komst á málið. Á endanum hafi það hins vegar ekki verið skólinn sem kom með lausn á vandanum. Hún segir skólann almennt ekki vilja kannast við að einelti viðgangist innan skólans.
„Nú hef ég verið í stjórn foreldrafélagsins og skólinn heldur því alltaf fram að það sé ekki einelti í skólanum og að það komi ekki eineltistilkynningar því allt sem upp kemur er titlað sem samskiptavandi, en það er auðvitað oft þunn lína þarna á milli.“
Annað mál sem kom upp varðaði miðjubarnið hennar sem skólinn lét í hendur einstaklings sem mátti alls ekki sækja barnið og átti það að vera skráð þannig. Hún segir drenginn enn vera að glíma við afleiðingar áfallsins sem hann varð fyrir vegna þess atviks. Hún segir skólann aldrei hafa farið yfir málið með þeim og þau ekki fengið að vita hvort verkferlum hafi verið breytt. Málið hafi þó verið það alvarlegs eðlis að lögregla og barnavernd hafi verið kölluð til.
Svo sagði yngsti drengurinn frá því fyrir tæpu ári síðan, þegar hann var á síðasta ári í leikskóladeild Helgafellsskóla, að kennari hefði meitt hann. Var það í fyrra skiptið sem hann talaði um að hafa orðið fyrir ofbeldi í skólanum.
„Það var ekkert gert. Ekki neitt. Starfsmaðurinn var ekki færður um deild, hann fékk ekki tiltal. Okkur var lofað að starfsmaðurinn væri ekki í kringum hann á meðan væri verið að leysa úr þessu, en það stóðst ekki. Þetta varð til þess að barnið mætti ekki í leikskólann í þrjá mánuði, því hann vildi það ekki því hann var svo hræddur.“
Konan tekur fram að það sé margt frábært starfsfólk í Helgafellsskóla sem hafi reynst þeim vel. Það hafi hins vegar of mikið gengið á.
„Allt sem hefur gengið á hefði svo hæglega verið hægt að leysa auðveldlega og á stuttum tíma. En þau skýla sér á bak við að við séum svo erfið og það sé aldrei neitt nógu gott fyrir okkur. Það sé ekki hægt að tala við okkur. Þau tala mikið um að skólinn sé nýr og að hlutirnir taki tíma, en það virðist bara vera þeirra leið eða engin leið,“segir hún. Þá hafi hún alltaf mætti köldu viðmóti frá skólastjóra og fundist hún dónaleg í framkomu.
„Ég viðurkenni fúslega að ég hefði alveg geta farið öðruvísi að í einhverjum tilfellum, en samt ekki, því við höfum bara reynt allt. Við höfum mætt á fundi í skólanum, á bæjarskrifstofunni og í menntamálaráðuneytinu, brosað og verið sæt, en það hefur ekkert upp á sig. Þannig mælirinn okkar er löngu orðinn fullur og traustið til þessarar stofnunar ekki neitt.“
Blaðamaður hafði samband við skólastjóra Helgafellsskóla sem sagðist ekki geta rætt einstök mál.