„Finnst málið á alla kanta sérstakt“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Karítas

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að með ákvörðun dómsmálaráðherra um að fresta brottvísun Yazans Tamimi í gær hafi framkvæmdavaldið á mjög vægan hátt haft áhrif á málið.

Enginn efist um hina efnislegu niðurstöðu sem liggur fyrir í málinu hjá stjórnsýslunni.

Aðspurður segir hann að engri sérstakri niðurstöðu um málið hafi verið náð á fundi ríkisstjórnar í morgun, heldur hafi það verið reifað og fyrir sitt leyti sé það áfram í þeirri stöðu sem það var fyrir gærdaginn.

Í samtali við mbl.is að loknum fundinum segir Bjarni frestunina núna ekki gefa fordæmi og að engin meginregla sé að verða til þótt þetta mál hafi ratað inn í ríkisstjórnina.

„Enginn að efast um hina efnislegu niðurstöðu“

Hann segist ekki hafa vitað af brottvísuninni fyrir umfjöllun fjölmiðla seint um nóttina, en að hann hafi um morguninn rætt við bæði Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Í kjölfarið hafi svo Guðrún tekið sína ákvörðun, sem Bjarni segist styðja.

„Þetta er mjög stórt matsatriði og frávik frá því sem við höfum haft sem algjöra meginreglu og munum áfram hafa sem algjöra meginreglu, um að við höfum ekki afskipti af einstaka málum. Fyrir mér, með því að fresta framkvæmd brottvísunarinnar, er með mjög vægum hætti haft áhrif á mál þar sem enginn er að efast um hina efnislegu niðurstöðu sem er fengin í mál þeirra sem eiga í hlut,“ segir Bjarni.

Lokað var fyrir umferð um Hverfisgötu á milli Lækjargötu og …
Lokað var fyrir umferð um Hverfisgötu á milli Lækjargötu og Ingólfsstrætis vegna mótmælanna. mbl.is/Karítas

Ekki undir hótunum um slit ríkisstjórnar

Spurður hvort að til tals hafi komið að ríkisstjórnarsamstarfið væri í húfi vegna málsins svarar Bjarni með skýrri neitun.

„Nei, var ekki undir neinum slíkum hótunum, en augljóslega var lögð á það þung áhersla að það mætti fresta framkvæmdinni ef hægt væri.“

Bjarni bendir á að á þessu ári hafi þúsund manns verið vísað frá landinu og að þetta sé eina málið sem hafi komið inn á borð ríkisstjórnarinnar. Segir hann afar óvenjulegt að óskað sé eftir því að stakt mál sé tekið svona upp og rætt á hinum pólitíska vettvangi.

Sé þetta hins vegar sett í samhengi við málafjöldann og þá umfjöllun sem þetta mál hafi fengið sé ekkert óeðlilegt að eitt mál komi til umræðu.

„Þetta er algjört frávik

„En ég neita því ekki að dómsmálaráðherra, mér og fleiri ráðherrum finnst málið á alla kanta sérstakt og þetta er algjört frávik frá því sem við erum vön að gera,“ segir Bjarni.

Spurður um stöðu ríkisstjórnarsamstarfsins eftir þetta segir Bjarni enga ástæðu til að ætla að ríkisstjórnin komi sködduð frá þessu máli.

Bjarni ítrekar að engin meginregla sé að verða til með frestun framkvæmdarinnar. „Í mínum huga hefur þessi ákvörðun dómsmálaráðherra ekkert fordæmisgildi.“

Frá mótmælum fyrir utan ríkisstjórnarfund í dag.
Frá mótmælum fyrir utan ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Karítas

„Algjörlega óraunhæf nálgun á þennan málaflokk

Fyrir utan ríkisstjórnarfundinn voru á tímabili 200-300 mótmælendur sem mótmæltu að vísa ætti Yazan á brott.

Skilur þú afstöðu þeirra?

„Ég heyrði þau segja öll börn eru okkar börn og ég heyri oft og tíðum að við eigum ekki að vera með virk landamæri og ég er því mjög ósammála og ég held að það sé algjörlega óraunhæf nálgun á þennan málaflokk, því miður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert