Lögreglan hefur komið upp grindum við Hverfisgötu 4 þar sem fundur ríkisstjórnarinnar er haldinn, en búið er að boða til mótmæla þar á eftir vegna fyrirhugaðrar brottvísunar Yazans Tamimi og fjölskyldu hans.
Eru nokkrir mótmælendur mættir nú þegar.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra staðfestu í Silfrinu í gær að málefni Yazans, tólf ára drengs með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne, yrðu rædd á fundinum.
Vísa átti drengnum ásamt fjölskyldu hans úr landi í gærmorgun. Voru Yazan og fjölskylda hans komin í Leifsstöð og búin að vera þar í nokkrar klukkustundir þegar dómsmálaráðherra fyrirskipaði að fresta brottvísuninni. Eins og mbl.is hefur greint frá var það vegna þrýstings innan ríkisstjórnarinnar frá Vinstri grænum.
Hópur fólks hyggst koma saman í dag fyrir utan fundinn til að mótmæla fyrirhugaðri brottvísun Yazans og fjölskyldu hans. Eins og áður sagði eru þegar nokkrir mættir.
Þeir ráðherrar sem eru mættir á fundinn hafa ekki viljað gefa sig á tal við blaðamann mbl.is sem er á vettvangi.