Að mati Landsnets eru líkur á viðvarandi orkuskorti næstu árin þar sem umframraforkuframboð til að bregðast við mismunandi aðstæðum á raforkumarkaði er lítið og því fylgja verðhækkanir á raforku.
Staðan muni lagast ef áform um nýjar virkjanir nái fram að ganga en til lengri tíma litið er þó þörf á fleiri virkjunarkostum til að mæta eftirspurn.
Þetta kemur fram í raforkuspá Landsnets sem verður kynnt í dag, en í henni er spáð fyrir um þróun framboðs og eftirspurnar á raforku á tímabilinu 2024 til 2050.
Segir þar að allt bendi til þess að raforkumarkaðurinn muni tvöfaldast við full orkuskipti. Verður vöxtur markaðarins að talsverðu leyti hjá heimilum og smærri fyrirtækjum, m.a. vegna fólksfjölgunar og orkuskipta í samgöngum á landi.
Segir í spánni að full orkuskipti vegna samgangna á landi muni ekki nást árið 2040 en fullum orkuskiptum fólksbíla er spáð fljótlega upp úr 2040.
Í spánni má sjá spá um að framboð á raforku árið 2050 verði 33 TWh á meðan eftirspurn eftir raforku gæti orðið töluvert meiri, eða 34-45 TWh.
Að mati Landsnets munu áform um nýjar vatnsafls-, jarðvarma- og vindorkuvirkjanir ásamt stækkun núverandi virkjana ekki duga ein og sér fyrir orkuskiptum. Í spánni kemur fram að nauðsynlegt verði að nota til viðbótar aðra smærri virkjunarkosti og nýja breytilega orkugjafa á borð við vindorkuver og til lengri tíma birtuorkuver og jafnvel sjávarfallaorkuver.
Segir í spánni að sveiflur í raforkuframleiðslu muni aukast með breytilegum orkugjöfum og muni vatnsorkuver gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja jafnvægi milli notkunar og orkuframleiðslu en ekki duga til að mæta auknum sveiflum. Mikilvægt sé því að skapa umhverfi fyrir nýsköpun fyrir nýja tækni, tengda m.a. orkugeymslum og snjalllausnum, til að auka sveigjanleika og tryggja orkuöryggi og -nýtni.
Þá kemur fram að vöxtur í raforkueftirspurn hjá stórnotendum sé hjá nýjum notendum á borð við matvælaframleiðslu og efnisvinnslu ásamt vexti gagnavera en ekki er gert ráð fyrir aukinni orkuþörf álvera.