Misvísandi málflutningur ráðherra í máli Yazans

Verður Yazan vísað af landi brott fyrir laugardag? Það er …
Verður Yazan vísað af landi brott fyrir laugardag? Það er ekki ljóst miðað við svör ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarráðherra, segir að mál Yazans Tamimi muni fara í efnislega meðferð. Slíkt getur þó aðeins gerst ef honum verður ekki vísað úr landi innan tilskilins frests, sem rennur út á laugardag. Þetta hefur ekki komið fram í máli annarra ráðherra.

„Það var farið yfir að það er frestun á málinu. Það verður tekið til efnislegrar ákvörðunar. Þannig það var það sem var rætt á fundinum, það var ósk um að málið yrði tekið fyrir og þess vegna er frestun sem er að eiga sér stað,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.

Hvað felst í því?

„Það er ekki mitt að segja. Það eru þar til gerð yfirvöld sem fjalla um þessi útlendingamál og við sjáum hvað setur í þeim efnum.“

Lilja ræddi við blaðamann mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
Lilja ræddi við blaðamann mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum. mbl.is/Karítas

Guðrún segir brottvísunina standa

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is að brottvísun Yazans stæði enn til en aftur á móti sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra að tilefni væri til að ætla að niðurstaðan yrði „góð fyr­ir Yazan og fjöl­skyldu hans“.

Þá sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is að það væri ólíklegt að honum yrði vísað úr landi á næstu dögum.

Lilja segir að Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, og Willum Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra hafi á ríkisstjórnarfundum fjallað efnislega um málið.

Þá sérstaklega vegna þess að Yazan Tamimi var á heilbrigðisstofnun og út frá barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Jákvætt að hælisumsóknum hafi fækkað

„Eitt stærsta viðfangsefni allra ríkja núna á Vesturlöndum eru hælisleitendamálin og nú höfum við verið að snúa við ákveðinni þróun – ríkisstjórnin – á síðustu mánuðum. Það hefur orðið mikil fækkun í umsóknum um alþjóðlega vernd, sem ég tel að sé jákvætt, því að kerfið þarf að geta ráðið við þetta.

Þannig það sem mér finnst skipta mestu máli er að við sem samfélag, að við ráðum við viðfangsefnið og þess vegna höfum við verið að nálgast þetta af mun meiri ábyrgð í útlendingamálum. Ég tel að við séum á réttri leið hvað það varðar.“

Hefur þú áhyggjur af því að þetta mál geti haft áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið?

„Nei, þetta er mjög breið ríkisstjórn. Það eru kostir og það eru gallar sem felast í því. Við þurfum að tala okkur niður á niðurstöðu sem endurspeglar mjög oft samfélagssálina og það geta verið ákveðnir vankantar í því en við tölum okkur ætíð niður á skynsamlega niðurstöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka