Ráðherrar keppist við að slá sig til riddara

Jóhann Páll segir að Yazan og fjölskylda hans hafi orðið …
Jóhann Páll segir að Yazan og fjölskylda hans hafi orðið að leiksoppi í pólitísku leikriti. Samsett mynd

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ráðherra í ríkisstjórn keppast við að slá sig til riddara hvert á sínum forsendum vegna máls palestínska drengsins, Yazans Tamimi, sem átti að flytja af landi brott í gær.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra lét fresta brottvísun Yazans og fjölskyldu hans eftir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, óskaði eftir því að málið yrði rætt frekar í ríkisstjórn.

Á meðan bíði drengurinn á milli vonar og ótta á sjúkrahúsi þar sem hann hrökkvi í kút í hvert skipti sem einhver kemur inn í herbergið „eyðilagður eftir atburði síðustu sólarhringa, síðustu mánaða. Eftir að hafa verið vakinn núna um miðja nótt, rifinn á fætur og látinn dúsa í sjö klukkustundir í varðhaldi á Keflavíkurflugvelli áður en brunað svo meðan til baka vegna þess að það átti að ræða málið hans á ríkisstjórnarfundi, og nú tala ráðherrar út og suður,“ sagði Jóhann Páll á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins.

Verði að fá að hvílast næstu daga

Yazan er með vöðvarýrn­un­ar­sjúk­dóm­inn Duchenne. Hann var staddur í Rjóðrinu, hjúkr­un­ar- og end­ur­hæf­ing­ar­deild fyr­ir lang­veik og lang­veik fötluð börn þegar hann var sóttur af lögreglunni á sunnudagskvöld.

Jóhann Páll segir drenginn og fjölskylda hans hafi orðið að leiksoppi í pólitísku leikriti og að nú sé nóg komið.

Fjölskyldan verði nú að fá fullvissu um það frá stjórnvöldum, heilsu drengsins vegna, að hann sé óhultur á sjúkrahúsi. „Að hann fái að njóta öryggis á sjúkrastofnun eins og gildir almennt um sjúklinga og þeim er tryggður réttur til. Að þar fái drengurinn að hvílast næstu daga eftir þessar raunir án þess að þurfa að óttast að martröðin endurtaki sig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert