Samskiptin virðist hafa „verið í lagi“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að búið sé að fara yfir samskipti lögregluyfirvalda og heilbrigðisyfirvalda í aðdraganda þess að Yazan Tamimi var vakinn og fluttur brott af sjúkrastofnun að kvöldi sunnudags, og að þau virðist hafa verið í lagi.

Frestun á brottvísun Yazans og fjölskyldu hans var til umræðu á fundi ríkisstjórnar fyrr í dag.

Yazan, sem er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne, var vakinn seint á sunnudagskvöld þar sem hann lá í spítalarúmi í Rjóðrinu, hjúkrunar- og endurhæfingardeild fyrir langveik og langveik fötluð börn.

Þar næst var hann fluttur í Leifsstöð þar sem hann beið þess að verða vísað burt úr landi. Skömmu áður en flugvélin átti að taka á loft fyrirskipaði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra að brottvísun hans skyldi frestað. 

Mikilvægt að undirbúa brottför

Í tilkynningu frá Landspítala í gær kom fram að skýra þyrfti betur hvaða heimildir stjórnvöld hafa til að fara inn á sjúkrastofnanir og sækja þangað veika einstaklinga til brottflutnings úr landi.

Þetta mál varðar meðal annars Landspítalann. Lögreglan fór inn á spítalann og sótti tólf ára gamlan dreng sem var þar í endurhæfingu. Landspítalinn talar um að það sé ekki skýrt hverjar heimildir lögreglu séu til að framkvæma slíkar aðgerðir. Hvernig horfir þetta mál við þér?

„Almennt er það nú þannig að stjórnvöld reyna að fara þannig fram að það raski ekki þeirri þjónustu sem á við í hverju tilviki. Þannig vinnur heilbrigðisstofnun – að veita öllum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þannig var það í þessu tilviki. Það þurfti auðvitað að ræða þá þætti sem snúa að framkvæmdinni í þessu tilviki,“ segir Willum og heldur áfram:

„Það er alveg þekkt að samskipti lögreglu og heilbrigðisstofnunar, þau koma upp. Þá er mikilvægt eins og í þessu tilviki að vera búinn að hafa samband við móttöku og undirbúa brottför. Svo eru barnalög sem gilda, þá þarf auðvitað að vera búið að gera fulltrúa Barnaverndarstofu viðvart og við vorum bara að fara yfir þessi atriði og þau hafa verið í lagi það sem best verður séð.“

Verkferlar virðast í lagi

Þannig að þér finnst ekki að það þurfi að fara yfir einhverja verkferla?

„Það er búið að fara yfir þá og þeir virðast vera í lagi.“

Var að þínu mati ekkert athugavert við aðgerðina aðfaranótt mánudags?

„Ég er ekki að segja það. Ég er að segja að þau atriði sem hafa verið sett fram um þessi samskipti sem þurfa að vera til staðar, að þau virðast hafa verið í lagi. Nú var ég ekki sjálfur á staðnum,“ segir Willum og heldur áfram:

„Það er augljóst að heilbrigðisstofnun passar alltaf upp á sitt hlutverk sem er að gæta öryggis og huga að sjúklingum og það er stjórnvalda að gæta að því að raska ekki öryggi sjúklings, það er það sem þetta snýst um. Það er ekkert sem bendir til annars en að þess hafi verið gætt í þessu ferli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert