Sex í hættulegum aðstæðum í Reynisfjöru

Frá Reynisfjöru í dag. Fólkið tengist ekki aðgerðum dagsins.
Frá Reynisfjöru í dag. Fólkið tengist ekki aðgerðum dagsins. mbl.is/Jónas Erlendsson

Betur fór en á horfðist þegar hópur fólks virtist kominn í vandræði í Reynisfjöru fyrr í dag.

Björgunarsveitir og lögregla sem voru við leit að manni sem er saknað varð fólksins viðvart og varaði það við yfirvofandi hættu.

Brynja Sverrisdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að fólkið hafi komist úr aðstæðunum af sjálfsdáðum.

„Þarna sást til sex manneskja sem voru að fara meðfram berginu þegar flæddi að. Björgunarsveitarfólk og lögregla höfðu talsverðar áhyggjur af fólkinu og reyndu strax að koma þeim skilaboðum á framfæri til fólksins að hættan væri yfirvofandi,“ segir Brynja.

Hún segir brimrótið hafa verið mikið.

„Það er alltaf hætta þegar fólk þekkir ekki aðstæður. Við erum alltaf að brýna fyrir fólki að fara varlega í Reynisfjöru,“ segir Brynja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert