Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði vegna samgöngusáttmála

Sandra Hlíf Ocares.
Sandra Hlíf Ocares. Ljósmynd/Aðsend

Sandra Hlíf Ocares, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem sat í borgarstjórn í dag í fjarveru Hildar Björnsdóttur, oddvita flokksins í Reykjavík, greiddi atkvæði með uppfærslu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins á fundi borgarstjórnar í dag.

Á fundinum var samgöngusáttmálinn, sem undirritaður var nýlega á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins, ræddur og svo voru greidd atkvæði um hann.

Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Viðreisnar og Pírata greiddu allir atkvæði með sáttmálanum, en það gerði einnig Sandra og fulltrúi Vinstri grænna. Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sat hjá við atkvæðagreiðsluna, en fjórir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúar Sósíalista og Flokks fólksins greiddu atkvæði gegn sáttmálanum.

„Í lífinu fær maður ekki allt sem maður vill“

Í ræðu sinni fyrir atkvæðagreiðsluna fór Sandra Hlíf yfir ástæður þess að hún greiddi atkvæði með uppfærslu sáttmálans. Sagði hún ljóst að það væru ekki allir sáttir með uppfærslun og að margt mætti vera öðruvísi. „Ég er sammála því, en eins og er í lífinu fær maður ekki allt sem maður vill,“ sagði hún.

Sandra Hlíf fagnaði því að nú lægju fyrir raunhæfari áætlanir en þegar sáttmálinn var upphaflega undirritaður árið 2019. Vegagerðin hefði þá ekki haft aðkomu að málinu, en væri nú framkvæmdaaðili og hún treysti áætlunum þeirra.

Kýs að horfa á glasið hálf fullt

Nefndi hún að endurskoða hefði mátt ákveðnar framkvæmdir, tryggja betri forgangsröðun og taka sérstaklega á greiðslukerfi almenningssamgöngukerfisins.

„En ég kýs að horfa á glasið hálf fullt í staðinn fyrir hálft tómt og ég fagna því að ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig í að setja almennilega peninga í samgönguinnviði hér á höfuðborgarsvæðinu, loksins. Hér býr stærstur hluti landsmanna og því eðlilegt að fjárfesting á innviðum endurspegli það.“

Vísaði Sandra Hlíf meðal annars í orð Almars Guðmundssonar, bæjarstjóra í Garðabæ og Ásdísar Kristjánsdóttur, bæjarstjóra í Kópavogi, sem hafi verið með ákveðna gagnrýni, en sagt að þetta væri samt besta lausnin.

„Þeir borga sem nota

Þá nefndi hún einnig gagnrýni sem hefur komið fram á tafargjöldin, eða umferðartolla sem eiga að fjármagna stóran hluta sáttmálans. Hún gæti ekki verið mótfallin slíku sem hægri maður. „Sem hægri maður þá trúi ég því að þeir borga sem nota og mér finnst að í samgöngumálum eigi það ekki að lúta neinum öðrum lögmálum en annars staðar.“

Sagði hún Reykjavíkurborg einnig þurfa að vera samkeppnishæfa og ekki eftirbát borga í nágrannalöndum þegar komi að samgöngukerfi. Sagði hún borgina í dag ekki vera samkeppnishæfa.

„Atkvæði með börnunum mínum, barnabörnunum mínum

„Við verðum að rífa okkur upp úr skotgröfunum og halda áfram. Ég mun greiða atkvæði með samgöngusáttmálanum,“ sagði Sandra Hlíf.

„Mér finnst ég vera að greiða atkvæði með börnunum mínum, barnabörnunum mínum og aukinni lýðheilsu,“ bætti Sandra Hlíf jafnframt við og fór yfir það hvernig sáttmálinn skipti máli í tengslum við loftlagsmál og umhverfismál. Rifjaði hún upp að oft þyrfti að halda leikskólabörnum inni vegna svifryksmengunar.

Fréttin hefur verið uppfærð með vísunum í ræðu Söndru Hlífar í borgarstjórn.

Samgöngusáttmálinn var tekinn fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur í dag.
Samgöngusáttmálinn var tekinn fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert