Svandís: Staða ríkisstjórnarinnar er örugg

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra. mbl.is/Karítas

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra sagði eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag að staða ríkisstjórnarinnar væri örugg og að hún ætti von á því að niðurstaðan fyrir Yazan Tamimi og fjölskyldu hans yrði góð.

„Við erum ekki að byrja að vinna saman í fyrsta skipti,“ sagði Svandís eftir fundinn. Sagði hún stöðu ríkisstjórnarinnar vera örugga og að á þeim sjö árum sem samstarf flokkanna þriggja hefði verið hafi þau farið í gegnum mörg flókin verkefni.

„Það er ekki vandalaust, en oft hefur það verið styrkur ríkisstjórnarinnar hvað hún er breið pólitískt. Ég held að þetta sé dæmi um slíkt mál. Við áttum mjög hreinskipt og gott samtal í ríkisstjórninni sem skipti máli,“ sagði Svandís.

Ekki rætt um að slíta ríkisstjórninni

Í gær átti að vísa Yazan, ellefu ára palestínskum dreng með vöðvahrörnunarsjúkdóm, úr landi og til Spánar. Var það stöðvað á síðustu stundu. Spurð hvort að Vinstri græn hefðu verið tilbúin að slíta ríkisstjórninni í gær hefði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ekki stöðvað brottvísunina, segir Svandís að ekkert slíkt hafi verið rætt.

Við ítrekaðri spurningu blaðamanns hvort ekkert hafi verið gefið í skyn að ríkisstjórnarsamstarfið gæti verið í húfi sagði hún: „Nei, get ekki sagt það.“

Svandís segir samt ljós að málið sé mjög pólitískt þung og mikilvægt fyrir stuðningsfólk Vinstri grænna. „En við höfum alltaf talað skýrt og talað hreint út með að málið í sjálfu sér er pólitískt mjög þungt og hefur verið í umræðunni um langt skeið og okkar grasrót og okkar bakland hefur miklar áhyggjur af þessu máli og það endurspeglar okkar málflutning inn í ríkisstjórn og kemur engum á óvart að það hefur áhrif inn í samtalið.“

Mun hafa áhrif á tímarammann

Var einhver niðurstaða um að honum verði ekki vísað úr landi?

„Þetta átti sér stað í gær og þá var gripið í taumana með þessum hætti og við tökum málið til umræðu í ríkisstjórn í dag. Og það eru mjög margir vinklar og sjónarhorn í þessu máli sem lúta að réttindum barna og samskiptum lögreglu við heilbrigðisyfirvöld,“ segir Svandís.

Spurð hvort verið sé að fresta málinu þangað til það fari aftur í efnismeðferð segir Svandís: „Það leiðir af sjálfu sér að það hefur áhrif á þennan tíma sem er fram á laugardaginn að málið er til umfjöllunar, en það er ekki á okkar borði að taka þá ákvörðun.“

Ríkisstjórnin mun standa og niðurstaðan góð fyrir Yazan

Værir þú til í að slíta ríkisstjórn ef hann verður brottfluttur á næstu dögum?

„Ég sé ekki að til þess muni koma.“

Telur að hann verði ekki brottfluttur?

„Ég er að segja að niðurstaðan okkar og umræðan í ríkisstjórn gaf tilefni til að ætla að ríkisstjórnin muni standa þetta af sér og að niðurstaðan verði góð fyrir Yazan og fjölskyldu hans,“ segir Svandís að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert