Telur ekki að gjá sé að myndast innan flokksins

Sandra Hlíf Ocares, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Sandra Hlíf Ocares, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Skjáskot/Reykjavíkurborg

„Auðvitað er enginn sáttur við allt í þessum sáttmála en hins vegar held ég að sjálfstæðismenn almennt séu sammála um að það verður að halda áfram,“ segir Sandra Hlíf Ocares, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Samgöngusáttmálinn var tekinn fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur í dag og greiddu fjórir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gegn sáttmálanum.

Spurð hvort að atkvæðagreiðslan beri þess merki að gjá sé að myndast innan flokksins segist varaborgarfulltrúinn ekki telja svo vera.

„Nei, ég held ekki. Ef þú sérð hvernig þetta er hjá sjálfstæðismönnum á höfuðborgarsvæðinu að þá er gjáin nú ekki mjög stór. Það eru ekki margir sem að eru hinum megin við hana,“ segir Sandra Hlíf og nefnir að þó að enginn sé sáttur við allt sem finna megi í sáttmálanum telji hún að almennt séu sjálfstæðismenn sammála um að halda þurfi áfram.

„Við getum ekki verið í þessari kyrrstöðu og eins og Ásdís Kristjánsdóttir hefur bent á þá er ekkert annað sem hefur komið fram sem er sneggra, ódýrara eða virkar betur,“ bætir hún enn fremur við.

Oddvitinn í afmæli

Athygli vakti að oddviti Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir, var fjarverandi á fundinum í dag en segir Sandra að oddvitinn sé ekki að hlaupa undan ábyrgð.

„Hún er í sjötugsafmæli móður sinnar erlendis sem var skipulagt fyrir einu og hálfu ári síðan. Það er staðan. Það er ekki það að hún sé að hlaupa undan ábyrgð.“

Varaborgarfulltrúinn tekur fram að hún og Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hafi lagt fram sameiginlega bókun á fundinum.

Lagning Sundabrautar skuli vera í forgangi

Þar segir að ljóst sé að ráðast verði í stórátak á höfuðborgarsvæðinu til að bæta samgöngur og auka öryggi í umferðinni með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þá skulu gjöld af umferð til að fjármagna samgöngumannvirki miðast við notkun, samhliða niðurfellingu vörugjalda af bifreiðum og eldsneyti.

„Borgarfulltrúarnir undirstrika mikilvægi þess að við framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði verkefnum forgangsraðað til að vinna hratt á þeim bráðavanda sem miklar og vaxandi umferðatafir valda og tryggja að arðsemi ráði forgangsröðun. Þá telja borgarfulltrúarnir jafnframt að lagning Sundabrautar skuli vera í forgangi,“ segir í bókuninni.

Um samgöngusáttmálann segir Sandra Hlíf að hún sé ánægð að það sé komin fjárfesting í samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu og nefnir hún að þörf hafi hlaðist upp fyrir því mjög lengi. Þá sé frábært að fjárfestingin sé mögulega líka í samræmi við fjölda landsmanna sem búi á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka