Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að það hafi verið sér þvert um geð að fresta brottvísun palestínska drengsins Yazans Tamimi. Hún segir brottvísun drengsins enn standa og að það sé ekki gott þegar aðrir ráðherrar hafi afskipti af hennar málaflokkum.
Spurð að loknum fundi ríkisstjórnar hvort ríkisstjórnin hafi komist að niðurstöðu svarar Guðrún neitandi.
„Það var ekki niðurstaða beint á þessum fundi, við bara ræddum málið mjög opinskátt og áttum góðar og hreinskiptar umræður.“
Þannig að brottvísunin á Yazan og fjölskyldu hans stendur enn.
„Í gær þá frestaði ég framkvæmd þeirrar brottvísunar en ákvörðun um brottvísun – hún stendur enn.“
Þannig að ef ég skil rétt þá hljótum við að vera að horfa til þess að það muni gerast núna bara á næstu nokkrum dögum?
„Við erum alla vega, við erum að skoða málið og fara yfir það hérna í ríkisstjórninni en ég hef engar heimildir – ég hef ákveðnar eftirlits- og yfirstjórnarheimildir í landinu og yfir mínum stofnunum og þá lögreglunni – en ég hef engar heimildir til þess að taka ákvörðun um að breyta niðurstöðum sem hér hafa verið teknar á stjórnsýslustigi hjá þess bærum yfirvöldum eins og Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála,“ segir Guðrún.
„Þess vegna í gær, þegar félagsmálaráðherra óskaði eftir því að fá svigrúm til að ræða þetta mál, þá ákvað ég að verða við þeirri beiðni, að fresta framkvæmd brottvísunar, en brottvísunin stendur enn. Ég hef engar heimildir til þess að taka ákvörðun sem breyta þeirri niðurstöðu.“
Geturðu lýst fyrir mér atburðarásinni þennan morguninn, hvenær var það sem þú sást að þessi brottvísun stæði til og væri jafnvel yfirstandandi og hvenær þú færð þessa beiðni um morguninn frá Guðmundi Inga?
„Ég er nú ekki með nákvæmar mínútur á takteinum en hlutirnir gerðust bara mjög hratt og þessi tiltekna fjölskylda var á leið í flug þegar þessi beiðni barst þannig að ég, eins og ég segi, ákvað að verða við henni og veita það svigrúm hér, þó að það hafi verið mér þvert um geð, svo að því sé haldið til haga,“ svarar Guðrún.
„Það er þannig að þegar Útlendingastofnun – og kærunefnd útlendingamála hefur staðfest niðurstöðu í málum, þá fær lögreglan beiðni frá þeim stofnunum um að framfylgja þeim ákvörðunum og í þessu tilfelli brottflutning eða fylgd frá landinu.
Lögreglan getur ekki tekið einhverja ákvörðun um það hvernig verkefni hún fer í eða hvenær hún fer í það eða ekki, þannig að þarna var lögreglan bara að sinna sínu lögbundna hlutverki sem þeim ber að gera og ég get, ég get ekki séð annað á ferli málsins en að lögreglan hafi sýnt þarna fagmennsku í verki, en við erum bara að skoða þetta.“
Nú hefur þú sjálf talað um að þú hafir ekki heimild til þess að skipa lögreglu að fresta þessari aðgerð. Munt þú hafa einhver frekari afskipti af því hvernig þessu máli verður háttað?
„Ég hef yfirstjórn hennar og eftirlitsheimildir sem ráðherra en ég hef ekki heimild til þess að snúa við ákvörðun sem hefur verið tekin á stjórnsýslustigi.“
Nú hefur þessi framkvæmd verið gagnrýnd meðal annars fyrir að hún hafi átt sér stað um miðja nótt. Að vanda þurfi til verka þegar verið er að flytja viðkvæman dreng með sjaldgæfan sjúkdóm á milli landa.
Muntu óska eftir því að þetta verði gert á öðrum tíma dags, þannig að það þurfi til dæmis ekki að vekja hann þar sem hann liggur í spítalarúmi, eða einhvern veginn hafa öðruvísi áhrif á hvernig þessi framkvæmd verður?
„Eftir því sem ég best veit þá var drengurinn sóttur að kvöldi sunnudags og það var einmitt gert til þess að viðkomandi einstaklingur gæti fengið hvíld í sjúkraherbergi á flugvellinum. En nú er það bara þannig að þegar við erum að flytja fólk í áætlunarflugi þá fer lunginn af fluginu snemma um morgun þannig að flestir svona brottflutningar sem eiga sér stað hér á landi með þessum hætti eiga sér stað snemma morguns eins og sagt er eða um miðja nótt. Það fer eftir hvernig á það er litið.“
Ef það stendur alltaf til að vísa þessum dreng á brott, og við vitum að það er slæmt fyrir hann að lenda í hnjaski og þessar aðgerðir hljóta að vera trámatíserandi, þegar það kemur þarna hópur fólks og sækir hann. Hvers vegna að verða við þessari beiðni ef það á bara að senda hann aftur?
„Það var óskað eftir samtali um þetta tiltekna mál. Það er rétt sem þú segir, að þarna erum við að fjalla um einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Fólk á flótta er í viðkvæmri stöðu svo ég tali nú ekki um þegar fólk á flótta sem er fatlað á einnig í hlut, þannig að staða þessa einstaklings er sérstaklega viðkvæm.“
Hefur þú óskað eftir upplýsingum um hvort þetta hafi haft einhver áhrif á heilsu hans, þessar aðgerðir sem farið var í aðfaranótt mánudags?
„Ég hef ekki gert það, ekki enn sem komið er.“
Hefur þú ...
„Ég ætla að fá að segja það að ég get ekki farið inn í svona einstök mál hérna. Ég er dómsmálaráðherra og ég ber ábyrgð á málaflokknum í málefnum útlendinga. Ég ber sömuleiðis ábyrgð á löggæslunni í landinu. Ég ber ábyrgð á Útlendingastofnun og kærunefndinni. Ég ber ábyrgð á því að þessir ferlar séu í lagi og að lögum sé fylgt í landinu og ég legg áherslu á að svo sé og svo verði áfram. Þetta er sérstakt mál.“
Þetta er sérstakt mál eins og þú segir. Þetta var rætt á þessum ríkisstjórnarfundi og þú hefur áhrif á þetta mál, þannig að þú hlýtur að geta rætt það við fjölmiðla?
„Ég er að ræða það við fjölmiðla.“
Þá vil ég spyrja: Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum, finnst þér eitthvað tilefni til að endurskoða einhvers konar verkferla eða telurðu að þetta hafi allt saman farið rétt fram?
„Eins og ég segi þá ræddum við þetta í ríkisstjórn núna áðan. Við erum að fara yfir þessa ferla. Við erum sömuleiðis að fara yfir bara feril þessa máls alveg frá a til ö, og eins og ég sagði áðan þá get ég ekki séð að það sé eitthvað athugavert við feril lögreglunnar í málinu heldur hafi þar verið vandað til verka.“
Hvað finnst þér um að formenn annarra stjórnarflokka séu að hafa afskipti af svona málum sem heyra undir þig?
„Það er ekki gott.“