Vaxtahækkanir flýti fyrir því að þenslan minnki

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræddi við mbl.is að …
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræddi við mbl.is að ríkisstjórnfundi loknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármála- og efnahagsráðherra segir að hækkun vaxta hjá tveimur viðskiptabönkum megi rekja til hás raunvaxtastigs í landinu. Þetta flýtir þó fyrir því að þenslan í hagkerfinu minnki og þar af leiðandi styttist frekar í stýrivaxtalækkun hjá Seðlabanka Íslands.

Viðskiptaráðherra segir að vaxtahækkanir bankanna séu óhóflegar. 

Í síðustu viku hækkuðu verðtryggðir breyti­leg­ir vext­ir íbúðalána hjá Íslands­banka um 0.50 pró­sentu­stig og verðtryggðir fast­ir íbúðalána­vext­ir hækkuðu um 0.40 pró­sentu­stig.

Þá hækkuðu verðtryggðir breyti­leg­ir íbúðalána­vext­ir hjá Arion banka um 0,60 pró­sentu­stig og verðtryggðir fast­ir íbúðalána­vext­ir hækkuðu um 0,50 pró­sentu­stig.

Stuðlar að minnkandi þenslu

„Við höfum séð ávöxtunarkröfu á skuldabréf fara hækkandi í sumar og það er sömuleiðis aukin eftirspurn eftir verðtryggðum lánum. Svona ákveðið ójafnvægi í starfsemi bankanna milli verðtryggðra og óverðtryggðra [lána] sem gerir það að verkum að á markaðnum hefur þessi ávöxtunarkrafa hækkað,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is.

„Þetta er auðvitað augljós afleiðing af mjög háu raunvaxtastigi í mjög langan tíma. Það góða við þetta, ef maður sér eitthvað gott við þetta, er að þetta flýtir þá fyrir því að þenslan minnki og styttir þá biðina eftir því að vaxtalækkunarferlið hefjist. En hvort að bankarnir séu að nota ferðina og hækka vextina eitthvað óþarflega mikið er sjálfsagt mál að skoða,“ segir Sigurður Ingi.

Óhófleg hækkun segir viðskiptaráðherra

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarráðherra, segir í samtali við mbl.is að vaxtamunur á Norðurlöndum sé einn sá mesti á Íslandi og Danmörku.

„Að sama skapi er arðsemi bankana undir meðaltali. Mér finnst bankarnir hafa hækkað vexti sína óhóflega mikið ef þú lítur á prósentutöluna. Að sama skapi hefur fjármögnunarkostnaður þeirra verið að aukast, en ég tel að þeir geti gert betur,“ segir Lilja og heldur áfram:

„Það þurfa allir að taka þátt í því að ná verðbólgunni niður. Nú er kostnaður almennings að aukast, að mínu mati, umfram það sem þyrfti að gerast. Ef við lítum á langtímakjarasamninga og hvernig viðmiðunarmörkin eru þar, og ef við lítum á fjárlagafrumvarpið – þar hækka gjöld ríkissjóðs um 2,5% og taka mið af verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þessi hækkun bankanna eru umfram þessi efnahagslegu viðmið.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/María Matthíasdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert