Íslenska ríkið var í dag sýknað af kröfum þriggja stéttarfélaga sem höfðu lögsótt stjórnvöld eftir að Landspítalinn sagði upp samningum með fastri yfirvinnu við fleiri en 300 starfsmenn.
Stéttarfélögin héldu því fram að breytingarnar á samningunum væru „hópuppsögn“.
Hæstiréttur er aftur á móti ósammála og segir að breytingarnar séu ekki „verulegar“. Sneri Hæstiréttur þar með við dómi Landsréttar.
Verkfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag tölvunarfræðinga og Lyfjafræðingafélag Íslands höfðuðu mál gegn íslenska ríkinu árið 2020 eftir að samningum 319 starfsmanna spítalans um fasta yfirvinnu var sagt upp í sparnaðarskyni.
Uppsögnin var með þriggja mánaða fyrirvara en jafnframt var starfsmönnum boðið að gera nýjan tímabundinn samning um fasta yfirvinnu. Stéttarfélögin kröfðust aftur á móti viðurkenningar á því að ákvörðun ríkisins hefði falið í sér hópuppsögn í skilningi laga.
Málið var fyrst tekið fyrir í héraðsdómi í desember 2020, en þar var ríkið sýknað af kröfum stéttarfélaganna. Stéttarfélögin áfrýjuðu málinu til Landsréttar og féll þar dómur í nóvember 2023 þar sem fram kom að aðgerðir ríkisins fólu í sér hópuppsagnir í skilningi laga.
Landsréttur leitaði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, þar sem kom meðal annars fram að það væri uppsögn þegar vinnuveitandi, einhliða og starfsmanni í óhag, gerði verulegar breytingar á meginþætti ráðningarsamnings af ástæðum sem tengdust ekki hlutaðeigandi launþegum.
Ríkið ákvað þá að áfrýja málinu til Hæstaréttar, sem komst nú að þeirri niðurstöðu að lög veittu opinberum starfsmönnum einnig réttarvernd fyrir hópuppsögnum en að þær breytingar sem urðu á starfskjörum starfsmannanna hefðu „ekki falið í sér verulegar breytingar á meginþætti ráðningarsamnings þeirra og því ekki um hópuppsagnir að ræða“.
Samkvæmt því var kröfum stéttarfélaganna þriggja hafnað.
Stóra spurningin í málinu snéri þá að því hvort breytingarnar – þ.e. að fella niður fasta yfirvinnu – teldust með sem „veruleg breyting“. Hæstiréttur segir nei. En hvers vegna?
Í dómnum kemur fram að breytingarnar feli ekki í sér „almenna launalækkun“ gagnvart þeim 319 starfsmönnum Landspítala sem uppsögnin tók til, heldur byggist þær á endurmati á þörf yfirvinnu.
„[Breytingarnar] gátu þannig einnig haft í för með sér að yfirvinnutímum fjölgaði eða að fjöldi þeirra stæði í stað,“ segir í dómnum.
„Þótt ekki væri lengur um fasta yfirvinnusamninga að ræða verður ekki fullyrt hvort launalækkun í þeim tilvikum þar sem yfirvinnutímum var fækkað sé varanleg. Þótt þessi breyting hafi getað leitt til einhverrar óvissu um fjölda yfirvinnutíma félagsmanna stefndu til framtíðar er eðli hennar samkvæmt framangreindu ekki slíkt að hún nægi ein og sér til að teljast veruleg.“