Sökum þess hve flókin rannsókn er á máli gegn Quang Le og öðrum sem hafa stöðu sakbornings í máli þar sem mansalsbrot, peningaþvætti og skipulögð brotastarfsemi eru til rannsóknar er enn talsvert í að rannsókn á málinu ljúki.
Svo segir Gunnar Axel Davíðsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með rannsókn málsins.
„Rannsóknin er enn í gangi og við byrjuðum að taka upp þráðinn aftur eftir sumarfrí starfsmanna,“ segir Gunnar Axel en víðtækar aðgerðir lögreglu 5. mars fólu meðal annars í sér handtökur fjölda manns.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/18/quang_le_eg_gerdi_ekkert_rangt/
Hann segir málið flókið í rannsókn vegna tungumálaörðugleika.
„Það er heilmikið sem á eftir að fara yfir og við eigum eftir að láta þýða gögn sem við teljum að tengist rannsókn málsins,“ segir Gunnar Axel.
Hann segir um að ræða gögn úr raftækjum og skjölum. „Það þarf að þýða þetta til að upplýsa málið.“
Ekki hafi bæst í hóp vitna eða fórnarlamba í málinu síðustu mánuði.