Gefur aftur kost á sér í embætti forseta ASÍ

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), hyggst gefa kost á sér annað kjörtímabil á 46. þingi sambandsins í október.

Þetta tilkynnti hann miðstjórn ASÍ fyrr í dag og staðfesti síðar í samtali við mbl.is.

„Ég gaf þá yfirlýsingu að ef að mönnum sýndist svo þá væri ég tilbúinn til þess að gefa kost á mér annað kjörtímabil. Ég gaf það út til miðstjórnar áðan,“ segir Finnbjörn.

Hefur þú fengið einhver viðbrögð?

„Ég var náttúrulega búin að fá þau viðbrögð áður. Það hefur verið svolítið legið á mér að bjóða mig fram og ég þarf náttúrulega að taka ákvörðun um það á einhverjum tímapunkti og ég gerði það núna fyrir þennan miðstjórnarfund og tilkynnti það að ég væri tilbúinn til að sitja annað kjörtímabil.“ 

Rétt að tilkynna framboð með þokkalegum fyrirvara

Þing ASÍ verður haldið dagana 16. til 18. október.

Finnbjörn segir að honum hafi fundist eðlilegast að tilkynna það með þokkalegum fyrirvara að hann ætli að bjóða sig fram.

„Bæði ef fleiri vilja bjóða sig fram og eins þannig að menn viti að hverju þeir ganga þegar þeir koma til þings.“

Hefurður heyrt af öðru hugsanlegu framboði?

„Nei, ég hef reyndar ekki heyrt af öðru framboði þannig að ég er enn þá bara í tómarúmi með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert