Heiðrún Lind spurð út í mögulegt formannsframboð

Nafn Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur hefur oft verið nefnt í bollaleggingum um mögulegan arftaka Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar og ef hann lætur gott heita á því sviði.

Framkvæmdastjóri í átta ár

Í Spursmálum gekk þáttarstjórnandi á Heiðrúnu Lind um þetta efni og spurði hana hvort hún hygðist láta slag standa en henni hefur þótt takast vel upp í hagsmunabaráttu fyrir sjávarútveginn síðustu átta árin þar sem hún hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins en miklar bollaleggingar hafa verið …
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins en miklar bollaleggingar hafa verið uppi um hvort hann muni stíga til hliðar á landsfundi í febrúar. Samsett mynd

Dáist að fólki í pólitík

Heiðrún segist dást að fólki sem leggi hinn pólitíska vettvang fyrir sig, en sjálf segist hún ekki á leið í pólitík.

Mörg nöfn hafa verið dregin upp úr hattinum að undanförnu í bollaleggingum um mögulegan arftaka Bjarna. Þar hafa, auk varaformannsins, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur verið nefndir aðrir ráðherrar flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem raunar gerði atlögu að Bjarna á síðasta landsfundi og Guðrún Hafsteinsdóttir, sem gustað hefur um að undanförnu. Þá hefur nafn Jóns Gunnarssonar, fyrrum dómsmálaráðherra einnig verið nefnt innan þingliðsins.

Utan þings hefur auk Heiðrúnar verið rætt um Elliða Vignisson, sveitarstjórnarmann til áratuga og núverandi bæjarstjóra í Ölfusi og Halldór Benjamín Þorbergsson, fyrrum framkvæmdastjóra SA og núverandi forstjóra fasteignafélagsins Heima.

Pólitíkin er alstaðar

Þessa dagana stígur hún hins vegar pólitíska öldu í kjölfar þess að matvælaráðherra kynnti frumvarp um stórtækar breytingar á gjaldtöku á sjávarútveginn. Eru þau mál meðal annars til umræðu í Spursmálum að þessu sinni.

Viðtalið við Heiðrúnu Lind má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert