„Þessi uppfærsla byggist því miður á áframhaldandi töfum og mynstri sem hefur verið í þessum málum síðan 2011 þegar Samfylkingin í borginni samdi við Samfylkinguna í ríkisstjórn um að seinka öllum samgönguframkvæmdum um tíu ár,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um uppfærðan samgöngusáttmála.
Samgöngusáttmálinn var tekinn fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur í gær og greiddu þar fjórir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal Kjartan, atkvæði gegn sáttmálanum. Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi flokksins, sat hjá en varaborgarfulltrúi flokksins, Sandra Hlíf Ocares, greiddi atkvæði með.
Þó segir Kjartan að ekki sé klofningur innan flokksins. Í ræðum Friðjóns og Söndru Hlífar hafi verið að finna gagnrýni á samgöngusáttmálann. Segir hann Söndru hins vegar hafa kosið að líta á það góða í sáttmálanum.
„Í mörgum atriðum erum við sammála um ákveðin atriði í þessum samgöngusáttmála en við fjögur sem greiddum atkvæði gegn sáttmálanum ákváðum að leggja áherslu á að það verða þarna miklar tafir á ýmsum samgönguframkvæmdum,“ segir Kjartan og nefnir að enn bóli ekkert á aðgerðum sem ákveðið var að setja í forgang árið 2019 og áttu að vera búnar 2021.
Borgarfulltrúarnir Ragnhildur Alda M. Vilhjálmsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason lögðu fram bókun, ásamt Kjartani, vegna samþykktar sáttmálans.
Kemur þar m.a. fram að borgarfulltrúarnir vilji að strax verði gripið til aðgerða í samgöngumálum t.a.m. varðandi aukið umferðaröryggi og bætt umferðarflæði og segir Kjartan að þau telji að hægt verði að fara strax í aðgerðir í stað þess að vísa þeim inn í framtíðina.
Þá lagði flokkurinn einnig fram tillögu á fundinum um að flýta gerð Miklubrautarganga en var henni vísað frá.
„Mér fannst rangt að vísa henni frá og mér hefði fundist gott mál að taka hana með í þessa umræðu og samþykkja og reyna þá að flýta fyrir aðgerð sem er góð. En meirihlutinn lítur greinilega svo á að þessi sáttmáli sé svo heilagur að það megi engu breyta í honum,“ segir borgarfulltrúinn.
Í bókuninni sem borgarfulltrúarnir fjórir lögðu fram í dag segir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sætti sig ekki við frekari tafir á úrbótum í samgöngumálum.
Vilja þeir að gripið verði strax til aðgerða til að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun í borginni og segja þeir að ljúka þurfi skipulagsvinnu vegna gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar sem fyrst og ráðast í framkvæmdir 2025. Stórbæta þurfi umferðarstýringu strax auk þess að grípa þurfi til aðgerða strax í því skyni að stórefla almenningssamgöngur í stað þess að bíða í mörg ár eftir borgarlínu.
„Uppfærsla svonefnds samgöngusáttmála byggist á tafastefnu vinstri meirihlutans í borgarstjórn. Mörg undanfarin ár hafa vinstri flokkarnir barist gegn samgöngubótum í Reykjavík. Nefna má ,,samgöngustoppið“ 2011 og aðalskipulagsbreytingar 2014 þegar samgönguumbætur voru teknar af skipulagi. Ekki hefur verið staðið við fyrirheit úr samgöngusáttmálanum 2019 um að þessi kyrrstaða yrði rofin. Með uppfærslunni nú verður haldið áfram á sömu braut. Ljúka átti úrbótum á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar 2011, sem hefur nú verið frestað til 2030. Úrbætur í umferðarljósastýringu áttu að vera í forgangi en afar lítið gerst í þeim efnum,“ segir í bókuninni.
Segja þá borgarfulltrúarnir að mörg verkefni sáttmálans séu of flókin og dýr. Sáttmálin sé ófjármagnaður, vanáætlar kostnaðarliði, sýni enga greiningu á óvissu- og áhættuþáttum og greini ekki arðsemi- og ábatamat einstakra verkþátta.
„Ljóst er að ætlunin er að leggja þunga viðbótarskatta á Reykvíkinga vegna hans,“ segir enn fremur í bókuninni.