„Málið er rannsakað sem stórfelld líkamsárás“

Ásmundur vildi ekki gefa upp á hvaða skemmtistað dyraverðirnir starfa.
Ásmundur vildi ekki gefa upp á hvaða skemmtistað dyraverðirnir starfa. mbl.is/Arnþór

Búið er að yfirheyra tvo dyraverði sem hafa réttarstöðu sakbornings eftir stórfellda líkamsárás í miðbænum um helgina. Búið er að sleppa þeim úr haldi á meðan rannsókn stendur yfir.

Þetta segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Málið er rannsakað sem stórfelld líkamsárás,“ segir hann en aðspurður segir hann að engin vopn hafi verið notuð í árásinni.

Maður­inn sem varð fyr­ir árás­inni er á þrítugs­aldri er þeir grunuðu eru á þrítugs- og fertugsaldri.

Rannsókn lýkur fljótlega

Rannsókn stendur yfir og ekki er búið að gefa út ákæru í málinu. Aðspurður segir hann að það séu „ekki nokkrar vikur“ eftir af rannsókninni heldur styttri tími. Verið sé að afla ýmissa gagna eins og til dæmis myndefnis.

„Mennirnir eru lausir. Voru látnir lausir að skýrslutöku lokinni,“ segir hann en þeir voru yfirheyrðir á sunnudag. 

Hann kveðst ekki geta tjáð sig að öðru leyti á meðan rannsókn stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert