„Ég skil ekki hvaðan þessar ásakanir koma. Enginn greiddi mér neitt,“ segir kaupsýslumaðurinn Quang Le, sem hefur verið á flestra vörum frá því hann var handtekinn í mars síðastliðnum í tengslum við meint mansal, peningaþvætti og skipulagða brotastarfsemi.
Hann segir hér sína hlið á málinu í einkaviðtali við mbl.is, en málið komst fyrst upp á yfirborðið eftir að mbl.is og Morgunblaðið greindu frá fordæmalausri aðgerð matvælaeftirlits Reykjavíkurborgar að morgni 5. október í fyrra.
Í viðtalinu hafnar hann öllum ásökunum en setur fram alvarlegar ásakanir í garð Alþýðusambands Íslands. Segir hann starfsmann þar hafa hótað starfsfólki brottvikningu úr landi ef það spilaði ekki með gegn sér.
Hann telur óskiljanlegt að honum hafi verið haldið í einangrun í sjö vikur og í gæsluvarðhaldi í 14 vikur en segir enn óskiljanlegra að fólk tengt honum fjölskylduböndum og jafnvel fólk sem er honum og rekstri fyrirtækja hans alls ótengt hafi verið handtekið.
„Ég gerði ekkert rangt,“ segir hinn 53 ára gamli Quang Le sem einnig tók upp íslenska nafnið Davíð Viðarsson.
Hann ræðir um upplifun sína af því þegar lögregla fór í aðgerðir á heimili hans og í fyrirtækjum þann 5. mars og hvernig málið í heild horfir við honum. Þá mun hann ræða um alræmdan matvælalager í Sóltúni sem og hvernig upplifunin hafi verið af því þegar hann kom úr gæsluvarðhaldi og stór hluti félaga hans var kominn í gjaldþrot.
mbl.is mun birta viðtalið við Quang Le í þremur hlutum. Hér er fyrsti hluti viðtalsins þar sem snert er á viðskiptum hans og ásökunum um mansal, peningaþvætti og að hann hafi flutt fólk til landsins á fölskum forsendum.
Quang Le segir að ASÍ hafi margsinnis talað við starfsfólk á hans vegum og reynt að sannfæra það um að snúast gegn vinnuveitanda sínum.
Hann telur að ASÍ hafi gert starfsfólki ljóst að ef það myndi votta fyrir meint brot hans gæti það átt háa kröfu í þrotabú félaga í hans eigu en eignir þar eru umtalsverðar og ábyrgð ríkisins á launakröfum sterk.
Þá segir hann ASÍ hafa hótað fólki því að reka það úr landi nema það myndi spila með.
Nefnir hann að einn starfsmaður verkalýðssambandsins, Adam Kári Helgason, af kjarasviði ASÍ, sem var einn viðmælenda Kveiks sem gerði fréttaþátt um meint afbrot Quang Le, hafi gengið sérstaklega hart fram og jafnvel tjáð starfsfólki fyrir fram að hann ætlaði að „taka Quang Le niður“.
Sérstaklega svíður honum að foreldrar hans og kærasta hafi verið handtekin og segir að þau hafi ekki komið að fyrirtækjum hans að neinu leyti.
Hann var með starfsemi á yfir 20 stöðum í Reykjavík þegar aðgerðirnar fóru fram og að sögn hans var árleg velta þeirra rúmlega milljarður króna samanlagt.
Allar eignir hans eru frystar á meðan rannsókn lögreglu fer fram. Fjögur af sjö félögum hans hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.
Eftir stendur NQ fasteignir, en þar er Herkastalinn meðal eigna, Vietnam Market og Vietnam Restaurant.
Félögin Vy-þrif, EA 17, Wok on ehf. og Vietnam Cuisine ehf. eru öll í skiptameðferð.
Quang Le segist hafa alist upp í Halong-flóa í Norður-Víetnam og unnið lengstum á veitingastað og á húsgagnaverkstæði sem voru í eigu fjölskyldu hans.
Hann flutti til Íslands árið 2001 eftir að hafa dvalið í Hong Kong. Eftir að hafa starfað í veitingageiranum um hríð opnaði hann hreingerningarfyrirtækið Vy-þrif árið 2007.
Árið 2009 opnaði hann matvörumarkað fyrir „Asíubúa á Íslandi,“ sem bar heitið Vietnam market. Um svipað leyti, eða árið 2010, opnaði hann svo veitingastaðinn Víetnam Restaurant í Ármúla.
Hann kveðst hafa að mestu haldið sig innan samfélags Víetnama á Íslandi en tekur þó fram að íslenskt samfélag hafi tekið honum og fjölskyldu hans vel.
Að hans sögn gekk matvörumarkaðurinn og hreingerningarfyrirtækinu vel. Í framhaldinu hafi hann tekið eftir því að enginn víetnamskur veitingastaður hafi verið hér á landi og því hafi hann ákveðið að opna slíkan stað á Suðurlandsbraut undir merkinu Vietnam Restaurant.
„Hlutirnir stækkuðu smátt og smátt,“ segir Quang Le.
„Öll fyrirtækin skiluðu hagnaði.“
Talið berst að viðskiptum hans.
Hvernig kom það til að þú keyptir Herkastalann?
„Ég fékk lán upp á 450 milljónir og greiddi út 50 milljónir. Ég fékk lán hjá fjölskyldu og vinum fyrir hluta af þessum 50 milljónum.“
Fékkstu lán hjá viðskiptafélögum þínum einnig?
„Nei.“
En hvernig stendur á því að fjölskyldumeðlimur fyrrverandi eiganda Wok on, Kristjáns Ólafs Sigríðarsonar, er á veðbandayfirliti?
„Kristján seldi mér Wok on. Á veðböndunum má sjá að þar er tryggingarbréf sem var ætlað að sjá til þess að ég myndi greiða fyrir Wok on.“
En hvers vegna er félag í eigu systur Kristjáns skráð fyrir tryggingarbréfinu?
„Ég gerði bara ráð fyrir því að þetta væri félag í eigu Kristjáns.“
Quang Le segir að um fimmtíu manns hafi starfað fyrir hann í þeim fyrirtækjum sem voru í hans eigu.
Aðspurður segir hann að hann hafi verið „hands on“-stjórnandi og að hann hafi starfað í eldhúsinu þegar þörf var á en einnig dvalið á skrifstofunni til að panta aðföng og fleira. Sér við hlið hafði hann framkvæmdastjóra sem sá um reksturinn með honum.
Quang Le var einnig búinn að festa mikla fjármuni í mathöll á Vesturgötu 2 og útbúa þar fjórtán matarbása sem til stóð að leigja út.
Hann var sjálfur leigutaki þar. Heldur leigusalinn því nú fram að samkvæmt leigulögum sé allt naglfast nú komið í eigu félagsins sem á fasteignina. Ber það heitið Fjélagið ehf.
Þú varst einnig að útbúa mathöll á Vesturgötu 2. Það lítur út fyrir að talsverð fjárfesting hafi farið í það. Ekki satt?
„Jú, það var rangt skref,“ segir Quang og hlær eilítið við.
Hve mikil var fjárfestingin þar?
„Í kringum 500 milljónir.“
Heldurðu að þetta séu tapaðir peningar?
Quang staldrar við og svarar ekki spurningunni. Segir svo:
„Ég var mjög bjartsýnn á að ég myndi ná að opna mathöllina.“
Að hans sögn hafði hann náð að leigja út fjóra af þeim fjórtán básum sem þar voru. Hann segir að opnunin hafi tafist þar sem seint gekk að fá leyfi.
Talið berst að 5. mars þegar lögregla gerði áhlaup á starfsemi Quang Le.
Hvernig upplifðir þú þennan dag?
„Þetta var fyrirvaralaust. Ég vissi ekkert hvað var í gangi fyrr en þeir handtóku mig á skrifstofunni. Ég frétti svo af því að þeir hefðu farið inn á heimili bróður míns og foreldra og handtekið þau. Ég var í miklu uppnámi. Ég trúði þessu ekki. Ég var ringlaður og skildi ekkert af hverju ég var handtekinn.
Það voru bara Víetnamar sem voru handteknir en enginn Íslendingur. Ekki heldur framkvæmdastjórinn til lengri tíma. Ég veit ekki til þess að hann hafi verið spurður neinna spurninga. Hann hætti bara nokkrum mánuðum áður. Ég get ekki ímyndað mér annað en að hann hefði átt að vera handtekinn líka fyrst verið var að skoða viðskiptin. Hann sá um stóran hluta af viðskiptunum.“
Hann segir lögreglu einnig hafa gert rassíu á fyrirtæki hans í fyrra.
„Þá komu sex eða sjö lögreglumenn á veitingastaðinn sem ég var á en þeir fóru á alla veitingastaðina mína. Þá var ASÍ ekki nærri,“ segir Quang Le.
„Þeir tóku skýrslu af öllum starfsmönnunum og voru að spyrja þá um vinnuaðstæður og hvort þeir hafi þurft að reiða fram greiðslu til að fá að koma til Íslands. Starfsfólkið sagðist ekki hafa þurft að greiða neitt. Svo vissi ég ekkert frekar um þetta.“
Hann segist hafa haldið að allt væri í lagi. En á þessu tímabili komu einnig starfsmenn frá ASÍ reglulega.
„Þau tóku starfsfólkið reglulega og ræddu einslega við það. Sumir sögðust hafa verið hræddir en fólkið sagðist ekki þurfa að borga neitt. Ég veit í sjálfu sér ekkert hvað starfsfólkið sagði við ASÍ en ég frétti að það hefði verið að spyrja um þessar greiðslur. En ASÍ-fólkið kom á öllum tímum dags, til að reyna að klekkja á mér og finna eitthvað sem væri að. En allt var í lagi, eins langt og ég vissi,“ segir Quang Le.
Að sögn hans hefur hann fengið fregnir af því að sumir í samfélagi Víetnama og jafnvel starfsfólk hans hafi öfundað hann af auði hans. Fólk hafi furðað sig á því hvernig hann gat keypt Herkastalann.
„En þetta fólk vissi ekki af því að þetta var að stærstum hluta lán frá bankanum, líka frá fjölskyldu og vinum,“ segir Quang Le.
Quang segist hafa fengið fregnir af því í gegnum fyrrverandi lögmann sinn að ástæða þess að lögregla fór í hinar víðtæku aðgerðir á þessum tiltekna degi, 5. mars, hafi verið sú að fréttaþátturinn Kveikur hafi unnið með ASÍ að gerð þáttarins.
Þannig hafi Kveikur verið búinn að tilkynna lögreglu að þátturinn væri að fara í birtingu. Lögregla hafi þá ákveðið að láta til skarar skríða.
Fréttamenn Kveiks voru viðstaddir lögregluaðgerðina.
„Ég fór beint í einangrun og vissi því ekkert um þennan þátt. En það sem ég veit er að ASÍ er búið að vera með mig á heilanum. ASÍ dró lögregluna inn í þetta, ASÍ var búið að ræða við starfsfólkið margsinnis. Aldrei var gerð nein athugasemd við neitt.“
Quang Le telur að starfsfólk hans hafi verið beitt miklum þrýstingi af starfsfólki ASÍ. Þrýstingi sem fólst í því að ef starfsfólk segði ekki frá einhverju þá ætti það yfir höfði sér brottvikningu af landinu.
Þannig að þú ert að halda því fram að starfsfólk ASÍ hafi hótað starfsfólki?
„Já, þetta er mestmegnis einn og sami maðurinn, hann Adam, sem stóð að þessu. Hann hótaði starfsfólkinu þessu,“ segir Quang Le.
Hvernig leið þér á þeim tímapunkti þegar búið var að handtaka þig og setja í gæsluvarðhald?
„Mér leið hræðilega. Ég vil eiginlega ekki rifja þetta upp... Ég var læstur inni í gluggalausu herbergi í sjö vikur. Fékk bara að fara út í 30 mínútur í senn tvisvar á dag. Ég fékk engan að hitta. Þegar ég var í uppnámi kom lögreglan að tala við mig. Tóku skýrslu af mér og báðu mig um að viðurkenna eitthvað.
Í annað skiptið sem þeir ræddu við mig voru þeir að spyrja mig út í eiturlyfjainnflutning. Sögðu að bandaríska alríkislögreglan hafi sagt að ég væri að flytja inn kókaín til landsins. Þeir sögðust hafa fundið kókaín á skrifstofunni. Ég skildi ekkert í þessu. En svo kom í ljós að þetta var hveiti sem notað er í matargerð,“ segir Quang Le og hlær eilítið við.
Quang Le segist reiður í ljósi þess að stór hluti fjölskyldunnar var færður í gæsluvarðhald og einangrun. Þeirra á meðal var kærastan hans sem var í einangrun í sjö vikur.
Að sögn hans glímir hún við eftirköst einangrunarinnar og er í meðferð hjá geðlækni. Einnig voru bróðir hans og eiginkona hans í einangrun í tvær vikur. Segir hann hana hafa farið mjög langt niður á meðan dvöl hennar stóð þar.
Bróðir hans starfaði í fyrirtækjum hans en eiginkona hans gerði það ekki. Þá var bókhaldari fyrirtækisins færður í einangrun og einnig faðir bókhaldarans.
„Bókhaldarinn var ólétt og sett í einangrun. Til hvers? Málið er að þau tvö, hún og pabbi hennar, eru með sama eftirnafn og ég, sem er Le, en eru alls óskyld mér. Ég skil ekki hvernig hægt var að tengja pabba bókhaldarans við þetta. Hann kom hvergi nálægt þessu að öðru leyti en því að heita Le, sem er svipað og að heita Jón á Íslandi.“
„Svo var pabbi minn, 78 ára, líka settur í fangelsi í 24 tíma. Svona myndi aldrei vera gert við Íslendinga. Að setja pabba einhvers í fangelsi því sonur hans er grunaður í einhverju máli. Hann veit ekkert um hvað viðskipti mín snúast,“ segir Quang Le.
Hann segir málið einnig hafa legið þungt á börnum hans sem eru 15 og 16 ára. Enginn hafi sinnt þeim á meðan hann og kærasta hans voru í einangrun.
En ásakanirnar eru alvarlegar og af ýmsum toga. Þú ert sakaður um að hafa falsað skjöl til að koma fólki til landsins á sérfræðileyfi. Þú ert sakaður um vinnumansal, með því að hafa ekki borgað fólki lágmarkslaun og að hafa vistað fólk í óviðunandi aðstæðum og fengið greiddar fúlgur fjár til að koma fólki til landsins. Þú ert sakaður um peningaþvætti. Hvernig skýrir þú þetta?
„Ég er sakaður um peningaþvætti því ég fékk peninga lánaða frá fjölskyldu og vinum til að kaupa Herkastalann. Ég þurfti að reiða fram 50 milljónir króna og það er sennilega menningarmunur á Íslandi og Víetnam hvað þetta varðar. Í Víetnam hjálpar fólk hvert öðru og þarna var fólk tilbúið að lána mér pening,“ segir Quang Le.
En það er ekki eins og þú hafir verið að kaupa eitthvað smáræði. Þú varst að kaupa gistiheimili á hálfan milljarð króna. Hvers vegna var fólk tilbúið að lána þér svona mikla peninga?
„Ég fékk 90% lán frá Landsbankanum upp á 450 milljónir, þetta var því bara lán til að geta haft þessar 50 milljónir tiltækar til að greiða fyrir gistiheimilið (Herkastalann). Ég fékk ekki allt lánað,“ segir Quang Le.
Taka ber fram að ekki er búið að ákæra í málinu. Því er ekki vitað hvort þessi kaup á Herkastalanum séu til sérstakrar skoðunar og þá hvers eðlis meint peningaþvætti er.
En nú ertu sakaður um mansal og starfsfólk er sagt hafa vitnað til um það að því hafi verið gert að greiða þér peninga. Háar fjárhæðir, allt að níu milljónir króna frá fólki, fyrir það eitt að hjálpa því að flytja til Íslands. Hvernig skýrir þú það?
„Ég skil ekki hvaðan þessar ásakanir koma. Enginn greiddi mér neitt. Mér skilst að ASÍ hafi búið til þá sögu að ef fólk var ekki tilbúið að spila með og að samþykkja einhverja sögu um mig þá myndi starfsfólkinu vera vikið af landi brott, aftur til Víetnam.
Eins var fólki sagt að ef það myndi halda einhverju fram um mig þá gæti það gert kröfu í búið mitt og fengið fullt af pening. Jafnvel er dæmi um að þetta hafi verið sagt við starfsmann sem var búinn að vinna hjá mér í nokkra mánuði. Sagt að hann gæti fengið 20 milljónir úr þrotabúi.“
Hann nafngreinir aftur sama Adam Kára sem hann segir að hafi gengið lengst í þessum efnum.
En nú er starfsmaður þinn sem segir í fréttaþætti að hann hafi þurft að greiða þér það sem nemur nær níu milljónum króna svo þú myndir fá hann til landsins. Hvernig stendur á því?
„Ég fékk engan pening frá neinum,“ svarar Quang.
„Mér er sagt að einhverjir hafi látið einhvern í Víetnam hafa pening. En ef svo er þá finnst mér það hljóma fjarstæðukennt að fólk hafi haft 65 þúsund dollara til að greiða fyrir að koma til Íslands. Fólk í Víetnam er með 300-500 dollara á mánuði í laun. Hvernig á allt þetta fólk að geta reitt fram svona mikinn pening? Þetta er eiginlega út í hött.“
Hann bætir því við að hann hafi ávallt greitt laun í samræmi við íslenskan launamarkað. Hann hafi verið með ráðningasamninga og allt hafi verið uppi á borðum.
En nú er starfsmaður sem segir í fréttaþættinum í Kveik að þú hafir krafið fólk um endurgreiðslu á hluta launanna. Að konan þín hafi farið til fólks og tekið hluta launanna til sín í beinhörðum peningum eftir að þú greiddir launin. Hvernig bregst þú við þessu? Þetta eru orð starfsmanns þíns.
„Það er ekkert til í þessu. ASÍ fékk þennan einstakling til þess að segja þetta. Öðruvísi hefðu þeir ekki ástæðu til þess að handtaka mig. ASÍ beitti fólk þrýstingi og þetta er allt af sama meiði,“ segir Quang Le.
En nú segir fólk að því hafi verið gert að vinna fyrir þig árum saman áður en þú leyfðir því að fara annað. Að það hafi þurft að greiða ákveðna upphæð áður en því var frjálst að gera aðra hluti.
„Fólk sem kemur til Íslands og er með sérfræðileyfi, eins og t.d. þeir sem eru með gráðu í asískri matargerð, þarf að vinna við það í fjögur ár að lágmarki áður en það gerir eitthvað annað. Þetta eru reglur sem íslenska ríkið setur,“ segir Quang.
„En það sem skiptir mestu í þessu er það að ASÍ sagði við starfsfólkið að það væri með falsaða gráðu og hótaði að reka fólk úr landi. En ef það myndi spila með gegn mér þá myndi fólk fá að starfa áfram á Íslandi og gera það sem það vill. Alltaf var þessi undirliggjandi hótun um að reka fólk úr landi.“
Hann segir að enginn frá Víetnam vilji fara frá Íslandi. Ekki síst í ljósi þess að í Víetnam þyki það hin mesta hneisa að þurfa að flytja þangað aftur. Því hafi hótunin haft nokkurt vægi.
En fólk hefur væntanlega ekki þurft sérfræðigráðu til að vinna við Vy-þrif?
„Nei, þar var fólk að vinna frá ýmsum þjóðernum. Bara fólk sem var ráðið til vinnu og mátti vinna þar,“ segir Quang Le.
Að sögn hans hafði hann milligöngu um 20-30 sérfræðileyfi starfsmanna sem komu til Íslands. Í öllum tilfellum var það fólk sem starfaði í eldhúsi veitingastaða hans við matargerð.
Fram hafa komið fregnir af því að sérfræðileyfum Víetnama hafi fjölgað ört og á síðasta ári var greint frá því að 300 Víetnamar hefðu fengið dvalarleyfi á Íslandi, en flest leyfin eru veitt á grundvelli sérfræðileyfa.
En til áréttingar. Fékkstu enga greiðslu frá neinum sem kom til Íslands fyrir þína tilstilli?
„Nei.“
Engin leið þar sem þessir peningar enduðu í þínum fórum?
„Nei, ég hef ekkert fengið. Það kannast líka enginn starfsmaður við þetta nema sá sem fór í viðtal í sjónvarpinu,“ segir Quang Le.
En heldurðu að hann sé sá eini sem heldur þessu fram?
Quang verður eilítið hugsi við þessa spurningu. Segir hann í framhaldinu frá frænku sinni sem hafði unnið fyrir hann í þrjá mánuði. Hann fullyrðir að henni og eiginmanni hennar hafi verið hótað brottvikningu frá Íslandi ef þau spiluðu ekki með. Því hafi þau skrifað undir yfirlýsingu hjá ASÍ um að þau hafi þurft að borga honum 20 milljónir króna.
„Þetta er frænka mín. Ég spurði hana hvers vegna hún gerði þetta. Hvers vegna hún hafi sagt að hún þyrfti að borga mér 20 milljónir. Þá gaf hún þá skýringu að ASÍ hefði hótað henni. Núna segist hún vilja segja satt og rétt frá. Fólk frá Víetnam er hrætt við yfirvöld. Þetta er öðruvísi á Íslandi en margir vita það ekki,“ segir Quang Le.
Þá bætir hann því við að ASÍ hafi tilkynnt henni að með því að segja þetta gæti hún gert kröfu upp á 20 milljónir í þrotabúið.
mbl.is hafði samband við Einar Huga Bjarnason, skiptastjóra eins þrotabúa félags sem áður var í eigu Quang Le, Wok On. Að sögn hans eru kröfur á annan tug starfsmanna í búið og að þær séu óvenjulega háar. „Allmargar milljónir,“ segir Einar Hugi. Samkvæmt heimildum mbl.is eru sambærilegar kröfur í þrotabúi annarra félaga sem áður voru í eigu Quang Le. Jafnvel kröfur upp á vel á þriðja tug milljóna króna.
En þú ert að lýsa spillingu hjá ASÍ. Þetta eru alvarlegar ásakanir.
„Já, svona er þetta bara.“
Quang Le segir að í hans huga hafi hann ekki getað ímyndað sér að þessir hlutir gætu átt sér stað á Íslandi.
„Ég hélt að svona gerðist bara í Víetnam, Kína, Norður-Kóreu og þannig. En þetta gerðist á Íslandi. Einni til tveimur vikum áður en lögregluaðgerðin fór fram kom maðurinn sem hafði sig mest frammi hjá ASÍ og ræddi við mann í hótelmóttökunni hjá mér. Hann spurði hann fjölda spurninga. Þær komu flatt upp á þennan starfsmann.
Hann segir að maðurinn frá ASÍ hafi sagt eftir að hann hafði lokið spurningum sínum að hann ætlaði að taka Quang Le niður. Starfsmaðurinn kom til mín og sagði mér frá þessum hótunum. Ég hafði enga trú á því að neitt væri á bak við þetta en það var rangt hjá mér.“
Í sjónvarpsviðtali er því haldið fram að fólk hafi verið hrætt við þig. Hvernig stendur á því?
„Ég hef alltaf litið á þetta sem vini mína. Fólk sem ég hef borið virðingu fyrir.“
Veistu hver þetta er sem steig fram í viðtali við Kveik?
„Ég held það, já.“
Hefurðu rætt við hann?
„Nei, ég má ekki ræða við neinn. Eftir að ég kom úr fangelsi fór ég og heimsótti veitingastað á Laugarvegi. Stað sem ég átti áður en ég fór í fangelsi en nú var skyndilega nýr staður opnaður. Þar var allt mitt fyrra starfsfólk. Fólk var mjög ánægt að sjá mig. Langflestir sýndu mér gott viðmót. Það voru bara nokkrir sem vildu ekki sjá mig þarna. Það er fólk sem ASÍ var búið að lofa milljónum í vasann,“ segir Quang Le.
Skrifaðar voru fréttir af því þegar Quang Le fór inn á veitingastaðinn þar sem hann er sagður hafa rætt við sitt fyrrverandi starfsfólk. Að sögn hans var ekkert nálgunarbann til staðar og honum heimilt að gera það sem hann vildi.
„Ég sýndi þeim vinskap. Ég vissi ekkert hvert ég ætti að fara. Eftir þennan fréttaflutning hef ég bara verið heima,“ segir Quang Le.
„Ég hef verið hræddur um að ég myndi fara í fjölmiðla fyrir það eitt að ræða við fólk.“
Aðeins að mansalsásökunum aftur. Fólk segist hafa unnið í 12-14 klukkustundir á dag sex daga vikunnar. Fyrir þetta hafi það einungis fengið um 300 þúsund krónur í vasann. Hvers vegna segir fólk þetta?
„Því fólk hefur hvata af því að segja þetta. Það getur gert 20-30 milljóna króna kröfu í búið mitt“
Og heldur þú að fólkið hafi vitað þetta þegar það sagði ASÍ frá þessu?
„Þetta kemur allt frá ASÍ. Sami maðurinn þar sagði þeim frá þessu. Hann gerði þeim í raun tilboð í staðinn fyrir að segja frá. Og að auki lofaði hann þeim að þau yrðu ekki flutt úr landi.“
En nú er því haldið fram að konan þín hafi farið og sótt hluta launa fólks. Að þau hafi verið látin greiða þér til baka hluta af laununum í gegnum konu þína. Hvers vegna ætti fólk að bendla hana við þetta að ósekju?
„Ég veit það ekki. En þetta gerðist aldrei. Þetta er bara hluti af einhverri sögu. Þú verður að athuga að fólk sat hjá lögreglu í 4-5 klukkustundir að gefa skýrslu. Fólk sem er mjög hrætt við lögregluna,“ segir Quang Le.
„Sumir sögðu satt og rétt frá, að þau höfðu aldrei greitt mér neitt. Svo voru aðrir eins og frænka mín sem sögðust hafa greitt mér eitthvað en það var bara því hún gat fengið pening út úr því og var hrædd um að vera rekin úr landi. Hún hefur sagt mér að henni þyki þetta mjög leitt.“
ASÍ segir að sumir starfsmenn hafi ekki fengið launaseðla. Hvernig stendur á því?
„Ég veit það ekki. Í Wok on var launaseðillinn bara rafrænn. Það er það eina sem mér dettur í hug.“