Ræddu gervigreind og pallíettukjóla

Fyrirlesarar á Markaðsviðburð Póstsins í Hörpu i dag, frá vinstri: …
Fyrirlesarar á Markaðsviðburð Póstsins í Hörpu i dag, frá vinstri: Bára Atladóttir, frá BRÁ Verslun, Arinbjörn Hauksson frá ELKO, Ósk Heiða Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptavina hjá Póstinum, Ágúst Óli Sigurðsson frá Svartagaldri, og Auður Ösp Ólafsdóttir ráðgjafi. Ljósmynd/Aðsend

Markaðsviðburður Póstsins var haldin Silfurbergi í Hörpu í dag og var fjölsóttur. Viðburðinn sóttu verslunar- og fyrirtækjaeigendur til að viða að sér fróðleik um vænlegar leiðir til árangurs í markaðsmálum en á sérstök áhersla var lögð á jólatörnina sem er framundan.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum en fjórir fyrirlesarar stigu þar á stokk.

Arinbjörn Hauksson, forstöðumaður markaðssviðs ELKO, byrjaði á að segja gestum frá því hvernig fyrirtækið leggur mikið upp úr ánægju viðskiptavina til dæmis með því að bjóða upp á góðan skilarétt í jólainnkaupunum.

Þá sagði Arinbjörn að allir miðlar væru nýttir til hins ítrasta í jólavertíðinni hjá ELKO. Póstlistinn spilaði þar lykilhlutverk og veitti viðskiptavinum forskot. Þá væri líka mikilvægt að manna starfstöðvar vel því álagið eykst til muna á afsláttardögunum að sögn Arinbjarnar. „Til dæmis þrefaldast pantanir í vefverslun á Q5, eins og við köllum þetta sölutímabil og segja má að umferðin um vefinn fylli bílastæðið í Lindum 125 sinnum á dag.“

Nýjasti meðlimur markaðsteymisins

Þá greindi Ágúst Óli Sigurðsson hjá Svartagaldri frá mikilvægi þess að nýta gögn vel til að áætla eftirspurn og mæla markmið en í þessu samhengi talaði hann um gervigreind sem „nýjasta meðlim markaðsteymisins“.

„Það má fá innblástur með því að nýta gervigreindina svo sem í tengslum við uppsetningu og sköpun en vélanám er líka gagnlegt til að finna sinn markhóp,“ segir hann og vísar til algrímsins á samfélagsmiðlum.

Málfarsvillan jók útbreiðsluna

Bára Atladóttir, hönnuður og eigandi BRÁ verslunar, var óspör á söluaukandi ráð í sínu erindi og sagði meðal annars frá því þegar hún stóð frammi fyrir því að vera með lager fullan af pallíetttukjólum í samkomubanni en tókst að fimmfalda sölu með því að bregða á leik á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #bráfancyfriday.

Bára uppskar hlátur í salnum þegar hún sagði frá málfarsvillu í starfsauglýsingu á vegum fyrirtækisins sem fékk heilmikla útbreiðslu einmitt vegna villunnar. Fyrir vikið hrönnuðust inn umsóknir.

Finni jafnvægið milli mennskunnar og gervigreindarinnar

Loks steig á stokk Auður Ösp Ólafsdóttir,markaðsklappstýra en í erindinu velti hún fyrir sér mannlega vinklinum á tímum gervigreindar og svokallaðri spunagreind, sem býr til ný verk á grunni annarra verka sem henni hafa verið kennd.

Sagði Auður að því fylgdi sú hætta að efnið sem gervigreindin myndi skapa yrði einsleitt og fábreytt.  Árangursríkast væri því að reyna að finna rétta jafnvægið á milli mennsku og gervigreindar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert