Sigrún og Gestur forstjórar nýrra stofnana

Sigrún og Gestur á samsettri mynd.
Sigrún og Gestur á samsettri mynd. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Umhverfis-, orku og loftslagsráðherra hefur skipað Sigrúnu Ágústsdóttur í embætti forstjóra Náttúruverndarstofnunar og Gest Pétursson í embætti forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Alþingi samþykkti í júlí frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun.

Ný Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Náttúruverndarstofnun tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar auk lífríkis og veiðistjórnunarhluta hennar.

Sigrún hefur verið forstjóri Umhverfisstofnunar frá árinu 2020 og hefur starfað að umhverfismálum í rúm 20 ár. Hún var sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun frá árinu 2008 og var auk þess staðgengill forstjóra áður en hún var skipuð í embætti forstjóra stofnunarinnar.

Gestur hefur verið forstjóri PCC BakkiSilicon frá árinu 2022. Áður hefur hann meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Veitna, forstjóri Elkem Ísland og framkvæmdastjóri öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála hjá Elkem Ísland.

Verður áfram forstjóri

PCC BakkiSilicon hf. greinir frá því í tilkynningu að Gestur verður áfram forstjóri fyrirtækisins þangað til stjórnin hefur fundið eftirmann hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka