Tæpar 6,9 milljónir renna í minningarsjóð Bryndísar Klöru

Bryndís Klara var jarðsungin á föstudag. Víða var kveikt á …
Bryndís Klara var jarðsungin á föstudag. Víða var kveikt á kertum til að minnast hennar. mbl.is/Eyþór

Afrakstur kertasölu og framlag verslanakeðja til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, sem jarðsungin var á föstudag, nemur 6.862.725 krónum.

Anna Björt Sigurðardóttir hafði frumkvæði að framtakinu og fékk Krónuna, Bónus, Nettó og Hagkaup til liðs við sig með skömmum fyrirvara.

Hvatti hún landsmenn til að kveikja á kerti við heimili sín eftir sólsetur á föstudaginn og stilltu verslanirnar upp kertum í búðum um allt land til stuðnings ákalli Önnu.

Allt hægt með samkennd og náungakærleik

Í tilkynningu frá Önnu segir að minningarsjóðurinn muni styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Upphæðin verður lögð inn á reikning sjóðsins sem er í umsjón KPMG. Anna Björt telur þetta góða framlag nýtast vel til að hrinda fyrstu verkefnum minningarsjóðsins af stað.

„Ég er svo innilega þakklát öllum sem tóku þátt í að styrkja minningasjóð Bryndísar Klöru með kaupum á kertum. Enn og aftur sýnum við sem þjóð að með samkennd og náungakærleik að allt er hægt,“ er haft eftir Önnu.

„Ég er þakklát fólki fyrir að kaupa kertin og þakklát Krónunni, Bónus, Nettó og Hagkaup fyrir samstarfið og sín framlög,“ segir hún.

„Ég veit að þessi fjárhæð mun koma sér vel og nýtast í fyrstu verkefnum minningarsjóðs Bryndísar Klöru. Höldum áfram að hugsa um samfélagið okkar og við þurfum að vinna saman að því að gera kærleikann að eina vopninu í okkar samfélagi,“ segir Anna Björt Sigurðardóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert