Tengsl við undirheima ekki hluti af rannsókninni

Lögreglubifreið á vettvangi nærri Vatnsskarði á Sveifluhálsi, norðan Kleifarvatns.
Lögreglubifreið á vettvangi nærri Vatnsskarði á Sveifluhálsi, norðan Kleifarvatns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan telur sig hafa nokkuð skýra mynd af andláti tíu ára stúlku sem fannst látin skammt frá Krýsuvíkurvegi á sunnudag. Faðir stúlkunnar, Sigurður Fannar Þórsson, er í gæsluvarðhaldi grunaður um verknaðinn. Hann er sá eini með stöðu sakbornings í málinu.

Möguleg tengsl mannsins við undirheima eru ekki hluti af rannsókn lögreglu.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar.

„Rannsókninni hefur bara miðað vel. Við teljum okkur vera með nokkuð skýra mynd. Hins vegar er þetta flókið mál og það er töluvert eftir.“

Hann kveðst gera ráð fyrir að rannsókn ljúki innan tólf vikna.

Greinir ekki frá því sem kom fram í yfirheyrslu

Spurður út í mögulegan ásetning segir Grímur ekki tímabært að upplýsa um það sem komið hefur fram í yfirheyrslum.

Sigurður var síðast yfirheyrður á sunnudaginn eða sama dag og stúlkan fannst látin. 

Sýni úr manninum hafa verið send til rannsóknar, til að fá úr því skorið hvort hann hafi verið undir áhrifum, en niðurstöður hafa ekki borist.

Spurður hvort Sigurður hafi játað verknaðinn ítrekar Grímur að hann vilji ekki svara fyrir um hvað hafi komið fram í yfirheyrslum.

Maðurinn var handtekinn við Krýsuvíkurveg.
Maðurinn var handtekinn við Krýsuvíkurveg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bíll á vettvangi sem talinn er tilheyra manninum

Eins og áður hefur komið fram fannst stúlkan látin skammt frá Krýsuvíkurvegi á sunnudaginn. Faðir stúlkunnar var einnig á vettvangi og hringdi sjálfur í lögregluna.

Var hann handtekinn á staðnum og síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. september.

„Það var bíll þarna sem við teljum að hafi tengst honum,“ segir Grímur, aðspurður.

Hann segir enn til rannsóknar hvar stúlkunni hafi verið banað og hve lengi hún var látin áður en lögregla kom á vettvang.

Fólk með konkret upplýsingar hafi samband

Aðeins einn er með stöðu sakbornings en Grímur útilokar ekki að sakborningum fjölgi eftir því sem líður á rannsóknina.

„Svona rannsókn getur alltaf leitt okkur á þær slóðir að einhver annar fái stöðu sakbornings, það verður ekkert endilega, en það getur gerst.“

Sögusagnir hafa gengið manna á milli um að einhver annar en faðirinn hafi orðið stúlkunni að bana.

„Almennt séð eru sögusagnir sem fara á kreik í tengslum við svona mál. Við höfum ekki elt ólar við sögusagnir,“ segir Grímur.

„Ég get bara sagt það að ef fólk hefur einhverjar konkret upplýsingar sem það vill koma á framfæri við okkur, um aðild annarra að þessu máli eða öðru, þá hvet ég fólk til að hafa samband við lögregluna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert