Vefþjónar á Íslandi hýstu miðil fyrir afbrotamenn

Vefþjónar fundust á Íslandi og Frakklandi.
Vefþjónar fundust á Íslandi og Frakklandi. Ljósmynd/Colourbox

Lögregluyfirvöld á Íslandi tóku þátt í fjölþjóðlegum aðgerðum við að taka niður dulkóðaðan samskiptamiðil sem var m.a. notaður fyrir skipulagða brotastarfsemi. Vefþjónar á Íslandi hýstu miðilinn og á sjötta tug voru handteknir.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Europol.

Ísland, Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Svíþjóð, Holland og Frakkland tóku þátt í aðgerðunum. Ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í aðgerðunum fyrir Ísland.

51 handtekinn

Samskiptamiðillinn var notaður við skipulagða glæpastarfsemi á borð við morð, fíkniefnasmygl, spillingu og peningaþvætti.

Aðgerðin, sem átti sér stað víða um heim á nokkrum dögum, var leidd af Eurojust og Europol og 51 var handtekinn.

Þá var haldlagt yfir eina milljón evra, eða að lágmarki 153 milljónir króna, skotvopn og fíkniefnaverksmiðju.

Vefþjónar fundust á Íslandi og Frakklandi

Rannsóknir á samskiptamiðlinum hófust þegar lögregluyfirvöldum í Evrópu var tilkynnt um að nýr dulkóðaður miðill væri í notkun í Svíþjóð, Frakklandi, Spáni og Hollandi.

Vefþjónar sem hýstu miðilinn fundust á Íslandi og Frakklandi en talið er að starfseminni hafi þó verið stýrt Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada.

Í tilkynningunni segir að þeir handteknu hafi verið frá Ástralíu, Írlandi, Ítalíu og Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert