„Xanax er rosalega stórt vandamál hérna á Íslandi núna,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga, í samtali við mbl.is um bensódíasepínlyfið sem ber þetta nafn og er róandi lyf eins og önnur í þeim flokki og á sér ef til vill þekktara nafn sem er Alprazolam.
Hefur neysla lyfsins aukist töluvert á landinu undanfarið, það er samdóma álit Guðmundar Inga og Valgerðar Rúnarsdóttur, yfirlæknis á Vogi, sem einnig ræðir við mbl.is hér neðar.
Guðmundur Ingi segir neyslu Xanax mjög mikla í íslenskum fangelsum þótt hún sé útbreidd víðar í þjóðfélaginu og bætir því við að hann telji ólíklegt að efnið sé framleitt hér á landi. Hugsanlega sé það þó pressað í töflur hér á landi eftir að hafa verið smyglað í öðru formi.
Er þar um að ræða ólöglega framleiðslu lyfsins, falsaða vöru sem ekki kemur frá löggiltum framleiðanda en Actavis og Pfizer hafa meðal annars framleitt lyfið.
Hjá frændþjóðinni Norðmönnum er neysla Xanax vel þekkt og töluvert um að efnið gangi kaupum og sölum á götunni, pakkað í álþynnur og að minnsta kosti sumt af því bílskúrsframleiðsla frá Póllandi sem smyglað er til landsins.
Í fyrrasumar ræddi heróínsali í Tønsberg við mbl.is og greindi frá því að meðal þess sem hann seldi auk heróíns væri Xanax og fleiri töflur sem seljast eins og heitar lummur á torginu við verslunarmiðstöðina Farmannsstredet þar sem kantmenn lífsins koma jafnan saman á bekkjum sem þar er að finna.
„Við erum að sjá þetta í fangelsunum hér og þetta er hrikalegt vandamál, menn verða bara eins og „zombíar“ [uppvakningar],“ heldur Guðmundur Ingi áfram og segir Xanax valda miklum skaða. „Það er reyndar smá lægð í þessu núna en neyslan á þessu er alltaf að aukast,“ segir formaður Afstöðu að lokum.
„Þetta er mikið notað, Xanax kemur mjög oft upp þegar fólk er að lýsa neyslu undangenginna daga og vikna þegar það kemur í meðferð,“ segir Valgerður yfirlæknir. Lyfið sé ekki selt löglega á Íslandi þannig að hún kveðst reikna með að um ólöglega framleiðslu eða smygl sé að ræða.
Yfirlæknirinn segir hátt hlutfall þeirra sem leita sér meðferðar á Vogi, á milli þriðjungs og fjórðungs, neyta bensódíasepínlyfja, „róandi lyf eru stór hluti af vímuefnaneyslu þeirra sem koma hingað og þar er Xanax mjög útbreitt“, segir yfirlæknirinn en aðspurð segir Valgerður lyfið ekki nýtt af nálinni á Íslandi, neyslan hafi verið mikil undanfarin ár.
„En það sem er nýtt núna er að ungt fólk er farið að nota lyf í mun meira mæli,“ segir hún og á þar við lyf með læknisfræðilegan tilgang – ekki fíkniefni. „Núna nota 25 ára og yngri mjög mikið af lyfjum og Xanax er orð sem heyrt hefur í þeirra frásögn í mörg ár.“
Hafið þið tilfinningu fyrir því hvers vegna fólk leitar í róandi lyf ef það er í blandaðri neyslu?
„Fólk notar mikið af lyfjum, í raun er þetta bara spurning um hvaða áratug þú ert að tala um, hvort það eru ópíóðar, kannabisefni eða áfengi, þetta eru allt róandi lyf, öfugt við amfetamín, e-töflur og kókaín,“ svarar yfirlæknirinn og segir umhverfið og aðgengið hafa mikið um neyslu fólks að segja.
„Þú sérð nú bara þetta nikótín á markaðnum í dag. Á þremur árum er búið að krækja í gríðarlega hátt hlutfall af ungu fólki með markaðssetningu. Þó er ekki eins og það hafi verið einhver leitun að nikótíni í sjálfu sér, það er bara hvatinn, hvað býðst, hvað er selt og hvað er í gangi,“ segir Valgerður.
Spurð út strauma og stefnur í neyslu landans segir hún áfengisneyslu orðna áþreifanlega meira vandamál. „Í öllum aldurshópum en kannski sérstaklega á miðjum aldri og upp úr, þar er fólk sem er orðið gríðarlega illa á sig komið af drykkju um fertugt-fimmtugt. Það er mjög áberandi núna, stöðug drykkja, en efnin eru kannski meira eins og síðustu ár þótt þar sé alltaf aukning,“ segir yfirlæknirinn á Sjúkrahúsinu Vogi að lokum.