740 milljón króna sígarettusmygl

Mennirnir fluttu sígaretturnar og reyktóbakið inn á árunum 2015 til …
Mennirnir fluttu sígaretturnar og reyktóbakið inn á árunum 2015 til 2018. Í stað þess að gefa upp raunverulegan farm sögðu þeir að um væri að ræða prótín og pappír og komust þannig hjá því að greiða 740 milljónir í tóbaksgjald og skatta. mbl.is/Árni Sæberg

Tveir karlmenn um fertugt hafa verið ákærðir fyrir stórfelld tollalagabrot með því að hafa komið sér hjá því að greiða 740 milljónir í tolla og skatta vegna innflutnings á sígarettum og tóbaki á árunum 2015 til 2018. Skráðu þeir vörurnar sem prótín eða pappír á tollskýrslum.

Um er að ræða í heildina 120.075 karton af sígarettum, eða 1.200.750 sígarettupakka og 5.400 karton af reyktóbaki.

Hald lagt á tæplega 200 milljónir og fjölda fasteigna

Þá er einnig farið fram á að fjárhæðir sem nema 55 milljónum og 134 milljónum verði gerðar upptækar hjá mönnunum, auk fjölda fasteigna.

Fyrirtækið sem flutti tóbaksvörurnar til landsins heitir Áfengi og tóbak ehf. Það er í eigu annars ákærðu, Snorra Guðmundssonar, sem oft er kenndur við rafrettuverslunina Póló. Auk hans er Sverrir Þór Gunnarsson, sem kenndur hefur verið við rafrettuverslunina Drekann, í forsvari fyrir félagið, en hann hafði stofnað Áfengi og tóbak (sem þá hét Tóbaksfélag Íslands ehf.) í gegnum félag sitt Urriðafoss ehf., en það félag rekur í dag Drekann.

Auk þeirra er þriðji maðurinn ákærður í málinu sem starfsmaður flutningafyrirtækisins Thor shipping, en samkvæmt ákæru eru Sverrir og Snorri sagðir hafa komið því til leiðar við starfsmanninn að tilgreina rangar vörutegundir á aðflutningsskýrslum fyrir tollafgreiðslu.

Sex ár í rannsókn

Málið kom upp árið 2018, þegar níunda sendingin sem ákært er fyrir, var tekin til tollskoðunar. Fyrsta sendingin var hins vegar í febrúar 2015, en þá var lítið magn af reyktóbaki flokkað sem prótín og komist hjá því að greiða 2 milljónir í tóbaksgjald og virðisaukaskatt. Aftur var farið með litla sendingu af reyktóbaki í gegn í nóvember sama ár, en í desember kom fyrsta stóra sendingin. Þá voru 12.175 karton af sígarettum skráð sem prótín og komust þeir hjá því að greiða 68,3 milljónir í tóbaksgjald og skatta.

Árið 2016 kom svo enn stærri sending, en þá var um að ræða 21.275 karton af sígarettum og 122,2 milljóna undanskot. Stærstu tvær sendingarnar komu svo í lok árs 2016 og árið 2018, en þær voru upp á 42.550 karton og 44.075 karton af sígarettum og voru undanskot tolla og skatta þá 244,2 milljónir og 270,1 milljón.

Embætti héraðssaksóknara fer fram á að innihald síðustu sendingarinnar sé gert upptækt. Þá er farið ítarlega yfir lausafjármuni og fasteignir sem farið er fram á að verði gerð upptæk.

Einbýlishús, atvinnuhúsnæði og sumarhús 

Hjá Sverri er um að ræða stórt einbýlishús í Garðabæ og lítið iðnaðarhúsnæði í Reykjavík. Þá er farið fram á að upphæð sem nemur um 55 milljónum króna verði gerð upptæk, en það eru fjármuni sem fundust á reikningum hans, á heimili og í bankahólfi. Stór hluti þess er þó 40 milljónir sem lagðar voru að veði fyrir 17 Rolex úr sem hann fékk afhent að nýju eftir að saksóknari hafði haldlagt þau við húsleitina.

Í tilfelli Snorra er farið fram á að upptöku á 50% eignarhluta hans í sumarhúsi í Bláskógabyggð, atvinnuhúsnæði á Stykkishólmi og stóru einbýlishúsi í Garðabæ. Þá hefur héraðssaksóknari lagt hald á 133,6 milljónir í lausafé sem var í hans eigu, en þar af eru 12 milljónir sem lagðar voru að veði fyrir sjö úrum sem haldlögð voru af héraðssaksóknara á heimili hans.

Ákæra í málinu var gefin út fyrr í þessum mánuði, en málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness fyrir lok mánaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert