Ábending barst frá einstaklingi sem dvaldi í sumarhúsi um að hvítabjörn hefði gengið á land á Höfðaströnd í Jökulfjörðum í dag.
Tilkynningin barst á öðrum tímanum í dag að sögn Hlyns Hafberg Snorrasonar yfirlögregluþjóns.
Aðspurður segir hann íbúa hafi tilkynnt um björn sem hafi sést nálægt byggð. Á svæðinu séu ekki margir á ferli en lítil sumarhúsabyggð er þar.
Lögreglan á Vestfjörðum hefur, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun, kallað út þyrlu LHG ásamt björgunarbátnum Kobba Láka sem var þá þegar farinn af stað með tvo lögreglumenn frá Ísafirði.
Segir Hlynur björgunaraðila sennilega vera við það að lenda á áfangastað. Ásgeir Erlendsson, samskiptastjóri Landhelgisgæslunnar, segir þyrluna hafa tekið á loft í kringum 14:45 og því enn nokkuð eftir af fluginu vestur á firði.
Átta ár eru liðin síðan sást með berum augum til ferða hvítabjarna hér við land. Sumarið 2016 gekk björn á land við Hvalnes á Skaga. Síðan þá hafa komið upp nokkur tilvik þar sem lögreglu var tilkynnt um ferðir hvítabjarna en ekki tókst að sannreyna þær tilkynningar.