Björninn sagður nálægt byggð

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/RAX

Ábending barst frá einstaklingi sem dvaldi í sumarhúsi um að hvítabjörn hefði gengið á land á Höfðaströnd í Jökulfjörðum í dag.

Tilkynningin barst á öðrum tímanum í dag að sögn Hlyns Hafberg Snorrasonar yfirlögregluþjóns.

Aðspurður segir hann íbúa hafi tilkynnt um björn sem hafi sést nálægt byggð. Á svæðinu séu ekki margir á ferli en lítil sumarhúsabyggð er þar.

Höfðaströnd í Jökulfjörðum um síðustu mánaðamót.
Höfðaströnd í Jökulfjörðum um síðustu mánaðamót. mbl.is/Þorsteinn

Lög­regl­an á Vest­fjörðum hef­ur, að höfðu sam­ráði við Um­hverf­is­stofn­un, kallað út þyrlu LHG ásamt björgunarbátnum Kobba Láka sem var þá þegar far­inn af stað með tvo lög­reglu­menn frá Ísaf­irði.

Segir Hlynur björgunaraðila sennilega vera við það að lenda á áfangastað. Ásgeir Erlendsson, samskiptastjóri Landhelgisgæslunnar, segir þyrluna hafa tekið á loft í kringum 14:45 og því enn nokkuð eftir af fluginu vestur á firði.

Hvítabjörn á Skaga fyrir átta árum

Átta ár eru liðin síðan sást með berum augum til ferða hvítabjarna hér við land. Sumarið 2016 gekk björn á land við Hvalnes á Skaga. Síðan þá hafa komið upp nokkur tilvik þar sem lögreglu var tilkynnt um ferðir hvítabjarna en ekki tókst að sannreyna þær tilkynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert