Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gert tillögu um það að Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verði fulltrúi flokksins í nýrri Mannréttindastofnun.
Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is.
Brynjar sagði óvænt af sér varaþingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður, eins og mbl.is greindi frá í morgun. Spurð að því af hverju hann sagði af sér vísar Hildur á Brynjar.
„Ég hef gert að tillögu minni að hann verði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Mannréttindastofnunar sem hann er til í að taka að sér. Það verður gott að vita af honum í því hlutverki fyrir hönd flokksins,“ segir hún.
Það á eftir að afgreiða þá tilnefningu formlega en stjórnina skipa fimm aðilar.
„Ef það er einhver sem hefur reynslu af því að verja mannréttindi borgaranna þá er það Brynjar Níelsson þannig það fer vel á því að hann setjist í þessa stjórn,“ segir Hildur.
„Í lögum um Mannréttindastofnun segir að þingmenn megi ekki vera í stjórninni. Varaþingmennska að mínu viti ekki það sama og þingmennska en auðvitað verður skýrara réttmæti þess að hann geti sinnt þessu hlutverki þegar hann er búinn að segja af sér varaþingmennsku,“ segir Hildur.
Spurð hvort að það sé ekki missir fyrir flokkinn að Brynjar sé búinn að segja af sér varaþingmennsku segir Hildur:
„Að sjálfsögðu er þetta missir úr hópnum í stóra samhenginu. Hann er auðvitað liðsmaður þó hann hafi ekki verið formlega partur af þingflokknum á þessu kjörtímabili, en blessunarlega verður hann áfram í verkefnum fyrir okkur.“