Eina leiðin var að fella björninn

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Eina leiðin til að tryggja öryggi fólks á Höfðaströnd var að fella hvítabjörninn sem gekk þar á land í dag. Þetta segir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is.

Tilkynningin um björninn barst á öðrum tímanum í dag en spurður hvernig aðgerðin fór fram lýsir Hlynur því að upp úr klukkan hálf fjögur hafi tveir lögreglumenn sem fluttir voru með björgunarbátnum Kobba Láka komið að landi á Höfðaströnd og að skömmu síðar hafi þyrla gæslunnar með séraðgerðasvið hennar um borð mætt á vettvang.

„Dýrið fannst í fjörunni skammt frá sumarhúsi sem er við Höfðaströnd og var fellt þarna á staðnum. Í sumarhúsinu er ein fullorðin manneskja sem heldur þarna til,“ segir Hlynur.

„Engin önnur úrræði“

Spurður hvort það hafi alltaf legið fyrir að björninn yrði felldur segir Hlynur að markmiðið hafi verið að tryggja öryggi á svæðinu og að þetta hafi verið eina leiðin til þess.

„Markmiðið er að tryggja öryggi fólks og ísbirnir eru hættulegir. Það er enginn að fara að taka svona dýr lifandi upp í þyrlu eða bát,“ segir Hlynur og bætir við:

„Umhverfisstofnun er ekki með þann búnað sem þarf til að fanga dýr lifandi þannig það eru engin önnur úrræði en þetta.“ 

Spurður hvað verði nú um hræ dýrsins segist Hlynur vænta þess að það verði nú flutt til Reykjavíkur þar sem náttúrufræðistofa muni rannsaka það og taka sýni. 

Hvítabörninn fannst í fjörunni skammt frá bænum Höfðaströnd, sem er …
Hvítabörninn fannst í fjörunni skammt frá bænum Höfðaströnd, sem er við Höfðaströnd í Jökulfjörðum. Við bæinn er lítil höfn sem sjá má á þessari mynd, en hún var tekin fyrir um þremur vikum. mbl.is/Þorsteinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert