Helmingi færri íbúðir en í áætlunum

Þörfin fyrir nýtt húsnæði er mikil.
Þörfin fyrir nýtt húsnæði er mikil. mbl.is/Árni Sæberg

Helmingi færri íbúðir eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu en sveitarfélög þar töldu sig geta byggt í húsnæðisáætlunum sínum.

Samkvæmt talningu HMS voru fjögur þúsund íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í september. Til samanburðar væri hægt að byggja tæplega átta þúsund íbúðir á þeim lóðum sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu töldu byggingarhæfar í húsnæðisáætlunum þeirra árin 2022 og 2023. 

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu HMS.

Mestu munar á framkvæmdum og væntum íbúðum í Reykjavík. Þar voru yfir 1.330 íbúðir í byggingu á meðan húsnæðisáætlun borgarinnar gerði ráð fyrir uppbyggingu 2.940 íbúða á lóðum sem voru taldar byggingarhæfar á síðustu tveimur árum.

Þar á eftir kemur Kópavogur, þar sem einungis 59 íbúðir eru í byggingu þrátt fyrir að bærinn áætlaði að byggingarhæfar lóðir árin 2022 og 2023 gætu séð fyrir uppbyggingu 1.401 íbúðar.

Framboð íbúða jókst á markaðnum

Framboð íbúða jókst talsvert á milli mánaða á fasteignamarkaðnum en á landinu öllu voru um 3.600 íbúðir til sölu í lok ágúst samanborið við um 3.300 íbúðir í lok júlímánaðar.

Leigumarkaðurinn hefur tekið breytingum frá síðasta ári. Fleiri leigja nú af vinum og ættingjum heldur en áður, samkvæmt niðurstöðum úr árlegri leigumarkaðskönnun HMS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert