Tekjur af erlendum ferðamönnum á öðrum ársfjórðungi þessa árs námu tæplega 154 milljörðum króna samanborið við 160 milljarða á öðrum ársfjórðungi síðasta árs.
Á 12 mánaða tímabili frá júlí 2023 til júní 2024 voru tekjur af erlendum ferðamönnum rúmlega 607 milljarðar króna samanborið við tæplega 543 milljarða fyrir sama tímabil árinu áður, að því er segir í tilkynningu frá Hagstofunni.
Fjöldi starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi voru 31.777 í júlí 2024 sem er 2% færri en voru í júlí 2023 þegar fjöldinn var 32.366.
Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi nam rúmlega 189 milljörðum króna í maí til júní sem er um það bil 3,6% aukning samanborið við sama tímabil 2023.
Gistinætur á hótelum í júlí 2024 voru 562.892 samanborið við 594.649 í júlí 2023. Gistinætur erlendra gesta voru 449.094 í júlí eða 8% færri en á sama tíma árið áður. Gistinætur Íslendinga voru 113.798, 9% fleiri en í júlí 2023
Í ágúst voru 333.802 brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli í samanburði við 326.782 í ágúst 2023. Brottfarir farþega með erlent ríkisfang voru 281.450 samanborið við 280.721 í ágúst 2023,sem er svipaður fjöldi farþega.