„Þetta var ekki það sem ég bjóst við að myndi gerast í dag,“ segir Hrefna Ásgeirsdóttir, háseti hjá vestfirska ferðaþjónustufyrirtækinu Borea, í samtali við mbl.is en hún lenti óvænt í því að aðstoða við aðgerðir lögreglu vegna hvítabjörns sem gekk á land við á Höfðaströnd í Jökulfjörðum.
Þegar blaðamaður náði tali af Hrefnu var hún enn stödd í Jökulfjörðum ásamt áhöfn sinni á farþegabát en þau höfðu verið á leið að sækja ferðamenn á bænum Kvíum hinumegin í firðinum þegar hjálparkallið barst.
Bátnum var siglt að Höfðaströnd þar sem áhöfnin fylgdist með í gegnum kíki en sá fyrst um sinn engan björn.
„Svo kom Kobbi Láka með tvo lögreglumenn og þá fer ég að skutla þeim í land til að athuga málið,“ segir Hrefna og bætir við:
„Við erum rétt komin í land þegar okkur er sagt að snúa við en þá hefur einhver frá Kobba séð til björnsins. Við snúum strax við og þegar við lítum til baka þá stendur hann við húsið.“
Hrefna og lögreglumennirnir komu sér þá fyrir aðeins fyrir utan höfnina og fylgdust með birninum í rólegheitunum.
„Svo gera lögreglumennirnir sig klára til að skjóta hann og þeir ná því í fyrsta skoti,“ lýsir Hrefna.
Á þessum tímapunkti var þyrla landhelgisgæslunnar sömuleiðis mætt á svæðið.
„Þegar þyrlan kom var ekkert meira sem að maður gat gert og þá hélt vinnudagurinn bara áfram,“ segir Hrefna að lokum.