Vangaveltur gengu lengra en innistæða var fyrir

Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum. mbl.is/Karítas

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að vangaveltur um stöðu ríkisstjórnarinnar hafi gengið lengra en innistæða var fyrir. 

„Ég held að umræðan og fjölmiðlar hafi frekar verið með vangaveltur sem gengu umtalsvert lengra heldur en raunveruleg staða innan ríkisstjórnarinnar var,“ segir hann í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.

Aðfaranótt sunnu­dags bár­ust fregn­ir af því að Yazan Tamimi hefði verið sótt­ur í Rjóðrið, hjúkr­un­ar- og end­ur­hæf­ing­ar­deild Land­spít­al­ans fyr­ir lang­veik fötluð börn, og flutt­ur á Kefla­vík­ur­flug­völl en til stóð að flytja hann og fjölskylduna til Spán­ar um morg­un­inn.

Verður ekki vísað úr landi fyrir laugardag

Brott­vís­un­inni var hins veg­ar frestað á síðustu stundu eft­ir að Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son fé­lags­málaráðherra hafði samband við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra sem heyrði í Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra sem frestaði brottvísuninni.

Strax fóru miklar vangaveltur um það hvort að fjölskyldunni yrði vísað úr landi eftir þessa frestun en Guðrún og Bjarni sögðu bæði að brottvísunin stæði. Aftur á móti tilkynnti Ríkislögreglustjóri í gær að sökum tímaskorts þá væri ekki hægt að flytja hann út fyrir laugardag.

Það þýðir að fjölskyldan fær efnislega meðferð þrátt fyrir að hafa verið synjað um slíkt af kærunefnd útlendingamála áður.

Ríkisstjórnin standi styrkum fótum

Sigurður segir að ríkisstjórnin standi styrkum fótum þó það sé ekkert launungarmál að ekki séu allir sáttir í grasrót flokkanna.

„Auðvitað þekkjum við öll að það er svona pirringur í baklandi og þingmannahópum, auðvitað yfir slöku gengi í skoðanakönnunum og það styttist auðvitað til kosninga.

Menn eru farnir að íhuga stöðu sína hvað það varðar en ég held að ríkisstjórnin sem slík og stjórnarflokkarnir sjái fyrst og fremst tækifæri í því að klára verkefnin sín og leggja síðan þá heildarniðustöðuna í dóm kjósenda,“ segir Sigurður.

Aðspurður segir hann að honum finnist ekki betra að kjósa að vori til frekar en hausti. Hann segir að ríkisstjórnin muni vinna út kjörtímabilið nema annað verði ákveðið.

Léttir að það sé komin niðurstaða

Spurður hvort að það sé léttir yfir því að einhver niðurstaða sé komin í máli fjölskyldunnar í bili segir Sigurður svo vera.

„Já, ég held að það sé nú kannski mikilvægast fyrir alla aðila, auðvitað þessa fjölskyldu sem er þá ekki lengur í einhverri óvissu, en ekki síður bara fyrir kerfið,“ segir Sigurður og heldur áfram. 

„Það var tekin ákvörðun um að fresta brottflutningi og taka til skoðunar ákveðna þætti. Síðan er þessi staðreynd uppi að það eru fáir dagar eftir af einhverri tímalínu sem gerir það að verkum að þetta er niðurstaðan og ég held að það sé eitthvað sem við þurfum öll að lifa með.

Um leið vil ég ítreka að það er auðvitað mikilvægt að þeir aðilar sem eru hér á landi og hafa fengið efnismeðferð og þá niðurstöðu að þeir fái ekki hæli, að þeir nýti sér þær leiðir sem við erum með fyrir sjálfviljuga brottför. Það er mikilvægt að það kerfi virki,” segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert