Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, getur vel trúað því að ákvörðun seðlabanka Bandaríkjanna um að lækka stýrivexti geti haft áhrif á Seðlabanka Íslands. Honum þykir ekki óeðlilegt að stýrivextir verði lækkaðir eftir tvær vikur.
Þetta kemur fram í samtali Sigurðar við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
Bandaríski seðlabankinn lækkaði stýrivexti í gær um 0,5 prósentustig en peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands fundar eftir tvær viku og tekur ákvörðun um vaxtastig.
Telur þú að þessar vendingar vestanhafs geti haft áhrif á ákvörðun peningastefnunefndar?
„Ég get alveg trúað því. Íslenska hagkerfið hefur sveiflast meira með hinu ameríska heldur en evrópska. Þar er búinn að vera viðvarandi samdráttur á meðan það hefur verið uppsveifla í Bandaríkjunum sem er sambærileg og sú sveifla sem hefur verið hér,“ segir Sigurður.
Hann segir að öll merki bendi til þess að það dragi hratt úr þenslu innanlands. Hann segir hækkun Íslandsbanka og Arion banka á verðtryggðum vöxtum vera dæmi um það.
„Þannig ég held að það séu sífellt fleiri teikn á lofti um það að það sem Seðlabankinn er að reyna gera er að ganga eftir. Og svona hátt raunvaxtastig eins og raun bera vitni, þar sem það er komið yfir 5 prósent á áhættulausum pappírum ríkissjóðs, að það hljóti að hafa áhrif til þeirrar skoðunar í Seðlabankanum og að þeir horfi til meðal annars Bandaríkjanna.“
Honum finnst vera margt í kortunum sem bendi til þess að það stefni í stýrivaxtalækkanir.
„Já, ég get alveg sagt það að mér fyndist það ekki óeðlilegt miðað við ástandið eins og ég er að upplifa það og við í fjármálaráðuneytinu,“ segir hann spurður hvort að hann vonist eftir stýrivaxtalækkun eftir tvær vikur.