Isavia ber bótaábyrgð á afleiðingum vinnuslyss í Leifsstöð

Atvikið átti sér stað í Leifsstöð fyrir sex árum.
Atvikið átti sér stað í Leifsstöð fyrir sex árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjaness sem sýknaði Isavia af kröfum konu sem fór fram á viðurkenningu á skaðabótaskyldu félagsins vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir er hún datt um trékassa við öryggishlið þar sem hún var á leið til vinnu.

Vinnuslysið átti sér stað árið 2018 og dómur héraðsdóms féll í maí í fyrra.

Lenti illa

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að konan hafi starfað fyrir Isavia í flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Hún varð fyrir líkamstjóni árið 2018 þegar hún féll um svokallaðan leitarkassa sem staðsettur er við leitarband við vopnaleitarhlið á flugstöðinni, svokallað Gullnahlið, sem konan þurfti að fara um á leið sinni til vinnu umræddan dag.

Konan lenti illa á gólfinu með þeim afleiðingum að hún fann töluvert til í öxlum, hálsi, baki, mjöðm og vinstra hné.

Hún höfðaði mál gegn Isavia í maí 2022 og sem fyrr segir sýknaði héraðsdómur Isavia af kröfum konunnar ári síðar.

Stuðst við upptöku

Í dómi Landsréttar segir, að meðal gagna málsins hafi verið upptaka úr eftirlitsmyndavélakerfi Isavia sem sýndi hvernig slysið varð.

Landsréttur segir að upptakan hafi borið greinilega með sér að trékassinn hafi ekki verið í augsýn konunnar, enda hefði þá annar maður staðið milli hennar og trékassans. Var því hafnað að slysið yrði rakið til eigin sakar konunnar.

Upptakan sýndi ekki að öðru leyti hvernig það hafði atvikast að trékassinn var í gangveginum á þeim stað þar sem konan féll um hann.

Lagði rétturinn til grundvallar að það væri að rekja til aðgæsluleysis ótilgreinds starfsmanns eða starfsmanna Isavia. Var Isavia því talið bera bótaábyrgð á afleiðingum slyssins og var krafa konunnar því tekin til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert