Bragi Gunnlaugsson, eða „Hjóla-Karen“ eins og hann er kallaður í netheimum, hélt erindi fyrir hönd þeirra sem kjósa hjólreiðar sem sinn helsta fararmáta á umferðarmálþingi í dag.
Málþingið er á vegum Samgöngustofu í samvinnu við ríkissáttasemjara og miðar að því að efla umræðu um umferðarmenningu á Íslandi og mikilvægi sáttar í samskiptum fólks í umferðinni.
Bragi hefur sjálfur verið bíllaus frá árinu 2017 en hann hefur sömuleiðis verið búsettur í Kaupmannahöfn og Þýskalandi þar sem fjölmargir fara leiða sinna hjólandi og hljóta virðingu og rými frá öðrum vegfarendum.
„Ég varð því fyrir eins konar menningarsjokki þegar ég flutti aftur heim,“ sagði Bragi.
Að hans mati einkennist umferðarmenningin í Reykjavík af lítilli virðingu í garð hjólreiðafólks. Er því sýnt lítið umburðarlyndi og lífi þess oft stofnað í hættu með glæfralegu aksturslagi.
„Það er eins og allir í umferðinni í Reykjavík séu að kúka á sig,“ sagði Bragi og uppskar mikil hlátrasköll í salnum.
Í erindinu sagði Bragi frá því að hann hefði komist að því að hann væri ekki tryggður í umferðinni ef keyrt væri á hann á hjólinu og að raunar væri það trygging bílstjórans sem gilti í slíkum atvikum. Til þess að sækja slíkar tryggingar þyrfti hann að færa sannanir fyrir ákeyrslu eða óhappi.
„Þannig ég spyr: „Hvernig á ég að sanna það?“ og fæ svarið: „Tja, þú getur verið með myndavél.“ Þannig ég hugsa bara: „Fínt, ég fæ mér þá bara myndavél“.“
Sýndi Bragi ýmsar upptökur samhliða erindi sínu af glannalegu og hættulegu aksturslagi og skrítna og ókláraða hjólastíga víðs vegar um borgina. Segir hann sömuleiðis stóran vanda hve margir bílstjórar hafi tamið sér þann ósið að leggja á hjólastígum á meðan þeir „skjótist“ eitthvert inn.
Í þeim tilfellum neyðist hjólreiðafólk til að hjóla á götunni í staðinn sem fari óbærilega í taugarnar á mörgu bílafólki. Þá minnir hann einnig á að hjólreiðainnviðir séu enn í uppbyggingu og því séu ekki alltaf hjólastígar til reiðu.
Þá sé sömuleiðis algengur misskilningur að hjól megi ekki vera á götunni. Það valdi því oftar en ekki að bílstjórar gerist djarfir og keyri of nálægt reiðhjólafólki og flauti eða öskri á það. Þeir sem hafi búið erlendis kannist eflaust flestir við það að þar sé eins og ósýnilegur bogi sé dreginn í kringum reiðhjólafólk sem bílar fari ekki inn fyrir.
„Hjól eiga og mega vera á götum og bílstjórar eiga að gefa hjólreiðamönnum 1,5 metra.“
Þá kvarti fólk einnig yfir því að hjólreiðafólk sýni litla tillitssemi á gangstéttum og viðurkennir Bragi að þar kunni að vera einhver sannleikur að baki. Hjól megi engu að síður deila plássinu með gangandi vegfarendum þar sem ekki eru hjólastígar.
„Þannig þetta er eiginlega ferðamáti sem má vera alls staðar en er hvergi sérstaklega velkominn,“ segir Bragi.
Það sé því ósk hans að fólk í umferðinni gefi hjólreiðafólki rými á götum úti og aki ekki of nálægt þeim og ógni þar með öryggi þeirra. Hann biðlar sömuleiðis til vegfarenda að sækja innblástur til Þýskalands á vegum úti og vera „kassar“ þegar kemur að umferðarreglum. Hann vonast einnig til að hjólainnviðir verði kláraðir sem fyrst og að fleiri byrji að fara út að hjóla.
„Og plís hættið að vera í símanum í umferðinni.“