Fjöldi í varðhaldi – mikið haldlagt á árinu

Embætti Úlfars Lúðvíkssonar hefur nítján manns í gæsluvarðhaldi, þar af …
Embætti Úlfars Lúðvíkssonar hefur nítján manns í gæsluvarðhaldi, þar af ellefu vegna fíkniefnamála. mbl.is/Óttar

Frá áramótum hefur 41 mál sem varðar stórfelldan innflutning á fíkniefnum komið til kasta embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum eftir því sem Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri gerir mbl.is grein fyrir.

Meðal þess sem lögreglan á Suðurnesjum hefur lagt hald á frá áramótum eru 18 kílógrömm af kókaíni, 18.710 e- og MDMA-töflur og 5.641 OxyContin-tafla.

Embættið sendi í gær frá sér tilkynningu um að nítján manns sætu nú í gæsluvarðhaldi og var þar ýmsum málum velt upp, svo sem álagi á lögreglu í ljósi Schengen-landamærasamstarfsins auk þess sem því var slegið fram að nú um stundir hrikti í stoðum landamæraeftirlits í Evrópu.

Á sama tíma búi lögreglan á Suðurnesjum við aðstæðuleysi og ónothæfa lögreglustöð og sé brýnt að hraða þeim framkvæmdum sem þar standi nú yfir. Undirtónninn vel læsilegur milli allra lína: Lögreglustjóri krefst úrbóta, innri landamæri Schengen-svæðisins séu líka landamæri.

Vændiskonum frávísað á landamærum

Var lögreglustjóri spurður út í mál sem tengjast þeim nítján sem nú sitja í gæsluvarðhaldi, ellefu fyrir fíkniefnainnflutning, átta fyrir grun um brot gegn útlendingalögum og grun um mansal.

Úlfar lögreglustjóri kveðst ekki geta farið út í einstök efnisatriði mála þegar mbl.is innir hann eftir því hvort mansalsmálin tengist vændi eða þar búi annars konar starfsemi undir.

„Hvað varðar vændiskonur þá er þeim frávísað á landamærum Íslands á Keflavíkurflugvelli við komu þeirra til landsins, ef rök standa til þess,“ segir lögreglustjóri. „Ekki hefur reynt á það hingað til að frávísa karli við sömu iðju frá landinu,“ heldur hann áfram og nefnir úrskurð kærunefndar útlendingamála í máli þar sem vændiskonu var vísað frá landinu með ákvörðun lögreglustjóra.

Ógn við allsherjarreglu

Upplýsti konan í viðtali hjá lögreglu að hún væri komin til landsins með það fyrir augum að starfa sem fylgdarkona, hún hefði oft komið áður og ætti sér marga viðskiptavini á landinu. Taldi kærunefndin komu konunnar til landsins raunverulega ógn við allsherjarreglu og rökstuddi í löngu máli.

Taldi konan brotið á stjórnarskrárbundnum rétti sínum til atvinnu hér á landi, en þeirri mótbáru hafnaði nefndin og staðfesti þá ákvörðun lögreglustjóra að vísa henni úr landi við komu til landsins.

Málið tengist engu þeirra mála vegna hverra átta mann sitja nú í gæsluvarðhaldi hjá embættinu á Suðurnesjum vegna gruns um brot á útlendingalögum eða mansals. Um þau vildi Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri ekki tjá sig sérstaklega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka