Námsstyrkur í nafni Ellýjar Katrínar

Ellý Katrín Guðmundsdóttir.
Ellý Katrín Guðmundsdóttir.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í vikunni tillögu Einars Þorsteinssonar borgarstjóra að koma á árlegum námsstyrk í nafni Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur lögfræðings og fyrrum sviðsstjóra og borgarritara, sem lést fyrr á þessu ári, 59 ára að aldri. 

Í tillögu borgarstjóra segir, að styrkurinn verði veittur einu sinni á ári í fimm ár fyrir meistararitgerð eða meistaraverkefni á sviði umhverfis- og/eða loftslagsmála. Í forgangi verði styrkir til verkefna eða ritgerða sem varða Reykjavíkurborg beint eða sveitarfélög almennt. Styrkurinn verður greiddur af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Í greinargerð með tillögunni segir að Ellý Katrín hafi starfað hjá Reykjavíkurborg í tæp 20 ár, fyrst sem sviðsstjóri Umhverfisstofu, svo sem sviðsstjóri umhverfis- og samgöngusviðs og loks sem borgarritari.

„Ellý Katrín var frumkvöðull á sviði umhverfis- og loftslagsmála hjá borginni. Hún leiddi samþættingu samgöngu- og umhverfismála og sinnti alþjóðastarfi borga í loftslagsmálum og leiddi í því samhengi verkefni sem opnuðu opnuðu nýjar víddir fyrir borgina í umhverfismálum. Í kjölfarið setti Reykjavíkurborg fram sín fyrstu markmið til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þá voru fjölmörg verkefni er varða sjálfbæra þróun unnin undir forystu Ellýjar sem var samstarfsfólki sínu góð fyrirmynd og innblástur til góðra verka. Það er því vel við hæfi að minnast Ellýjar Katrínar með þeim hætti að efla ungt fólk og rannsóknir á sviði umhverfis- og loftslagsmála eins og hér er lagt til.“ segir síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert