Vegagerðin er í samtali við Hafnarfjarðarbæ um mögulegar útfærslur á Reykjanesbraut þar sem hún liggur í gegnum bæinn og hvort þær skili bættu umferðarflæði. Þetta segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi stofnunarinnar.
Um er að ræða minniháttar breytingar á þessu stigi. Umfangsmiklar endurbætur eru ekki á dagskrá á allra næstu árum. Í því sambandi hefur helst verið verið rætt um tvær lausnir, þ.e. að grafa jarðgöng undir Setbergslandið og setja mislæg gatnamót við Kaplakrika. Þá hefur verið rætt um að setja Reykjanesbraut í stokk.
Gríðarleg umferð er á þessum kafla vegarins alla daga ársins, enda fer öll umferð til og frá Keflavíkurflugvelli þar um. Daglega aka meira 50 þúsund ökutæki að meðaltali eftir Reykjanesbraut meðfram Setberginu og annar eins fjöldi ekur Reykjanesbrautina úr Garðabæ.
Áform eru um stórskipahöfn í Straumsvík sem myndi hafa í för með sér tíðar ferðir flutningabíla. Miklir umferðarhnútar myndast á þessum kafla, sérstaklega á háannatíma.
Hafnfirðingar hafa í gegnum árin þrýst á samgöngubætur og bæjarstjórn sent ákall til Alþingis um að tryggja til þess fjármagn í samgönguáætlun.
Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar 4. september síðastliðinn var samþykkt að fela umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að fá óháðan ráðgjafa til að vinna tillögur að bættu og öruggara umferðarflæði við hringtorgið við Lækjargötu til bráðabirgða eða þar til varanleg lausn á kaflanum frá Lækjargötu að Álftanesvegi verður að veruleika.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 19. september.